Erlent

Hundar elska okkur mun meira en kettir

Bjarki Ármannsson skrifar
Kettir kunna ekki nærri því jafn vel að meta mannfólk og hundar, ef marka má nýja rannsókn.
Kettir kunna ekki nærri því jafn vel að meta mannfólk og hundar, ef marka má nýja rannsókn. Vísir/Getty
Kettir kunna ekki nærri því jafn vel að meta mannfólk og hundar. Að minnsta kosti ekki ef marka má rannsókn sem framkvæmd var fyrir nýja heimildarmynd breska ríkisútvarpsins og fjallað er um á vef breska blaðsins Independent. Taugalæknir kannaði þar viðbrögð tíu katta og tíu hunda við því að leika við mennska eigendur sína og niðurstöðurnar eru ekkert sérstaklega skemmtileg lesning fyrir kattaeigendur.

Vísindamenn hafa lengi talið sig vita að hundar framleiða oxytósín, sem einnig er þekkt sem „ástarhormónið,“ í heilanum þegar þeir hitta eigendur sína. Ekki fyrr en nú hefur verið reynt að athuga hvort það sama eigi við hjá köttum.

„Það bendir margt til þess að hundar elski í raun mennina sína,“ segir taugalæknirinn Paul Zak, sem framkvæmdi tilraunina. „Nokkrar minniháttar tilraunir hafa sýnt að bæði hundar og eigendur þeirra framleiða oxytósín þegar þeir talast við og leika. Mannfólk framleiðir þetta hormón líka þegar okkur þykir vænt um einhvern, til dæmis þegar við hittum maka okkar eða börn.“

Zak bar saman sýni úr köttunum og hundunum bæði fyrir og beint eftir samverustund með eigendunum. Sýnin leiddu í ljós að magn hormónsins jókst um 57,2 prósent að meðaltali í hundunum en aðeins um tólf prósent í köttunum. Miðað við þær niðurstöður, mætti segja að hundarnir elski eigendur sína fimm sinnum meira en kettirnir.

„Hundarnir brugðust mjög sterkt við,“ segir Zak. „Þetta sýnir að þeim þykir mjög vænt um eigendur sína. Það kom líka skemmtilega á óvart að sjá kettina framleiða oxytósín yfir höfuð. Þeir virðast tengjast eigendum sínum tilfinningaböndum, í það minnsta í einhverjum tilfellum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×