Innlent

Hundaeftirlitið hótaði að taka hundinn

Jakob Bjarnar skrifar
Freyja (t.h.) og Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar, hafa eldað grátt silfur vegna málsins.
Freyja (t.h.) og Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar, hafa eldað grátt silfur vegna málsins.
Freyja Kristinsdóttir dýralæknir, sem gagnrýnt hefur borgaryfirvöld harðlega fyrir það hvernig þau standa að gjaldheimtu fyrir hundahald, segir viðbrögðin við þeirri gagnrýni þá að hundaeftirlitið hafi hótað að taka af henni hund hennar, tíkina Dimmalimm sem er af Border Terrier-kyni. Þetta kemur fram í opnu bréfi hennar til borgaryfirvalda.

Ólögmæt skattheimta

Freyja hefur staðið í baráttu við borgaryfirvöld um hríð vegna þess sem hún segir óeðlilega gjaldtöku, sem jafnvel stangist á við stjórnarskrá. Hún segir að Reykjavíkurborg hafi vissulega leyfi til að innheimta þjónustugjöld lögum samkvæmt en þau gjöld megi aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Þar telur Freyja pott brotinn, hundaeigendur hafi aldrei fengið að sjá ásættanlegan rökstuðning borgarinnar við hundahaldið. Því sé um ólögmæta skattheimtu að ræða.

Vísir hefur fjallað um mál hennar en Freyja segir kostnað við hundaeftirlit ekki í nokkru samhengi við þjónustu sem hundaeigendur njóta og því sé um óbeina skattheimtu að ræða sem stangast á við stjórnarskrá.

Grunsamlega hár launakostnaður

Hún segir launakostnað grunsamlega háan miðað við verkefnin og gerir ráð fyrir því að hundaeigendum sé gert að fjármagna aðra starfsemi borgarinnar:

„Í bókhaldi hundaeftirlits kemur fram að tekjur af hundaleyfisgjöldum árið 2015 hafi verið 35 milljónir króna. Meðal útgjalda kemur fram að launakostnaður hafi verið 23,5 milljónir króna.“

En, eins og fram kemur í hinu opna bréfi hennar uppskar hún það eitt að vera hótað því að vera svipt hundi sínum:

„Þar sem hundaeftirlitið hefur nú hótað því að fjarlægja hundinn minn og koma honum fyrir í hundageymslu, sé ég ekki aðra úrkosti en að skrá hundinn og greiða gjaldið. Ég er almennt löghlýðinn borgari, en ég tók upp á borgarlegri óhlýðni til að vekja athygli almennings á lögbroti Reykjavíkurborgar og þeim órétti sem hundaeigendur eru beittir. Ég tel eftir sem áður að lögbrot Reykjavíkurborgar sé mun alvarlegra en brot mitt gegn hundasamþykkt Reykjavíkurborgar,“ segir Freyja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×