Íslenski boltinn

Hulda Birna ráðin framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar ÍA

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
mynd/heimasíða ía
Hulda Birna Baldursdóttir hefur verið ráðin framkvæmdarstjóri knattspyrnufélags ÍA (KFÍA). Hún tekur við starfinu af Haraldi Ingólfssyni 1. nóvember næstkomandi en fram að því mun hún taka þátt í einstökum verkefnum félagsins og setja sig inn í starfið. Þetta kemur fram á heimasíðu ÍA.

„Það er mjög spennandi að ganga til liðs við KFÍA á þessum tímapunkti. Ég þekki vel til félagsins, lék með yngri flokkum félagsins og meistaraflokki í nokkur ár, spilaði svo með BÍ og Stjörnunni. Markmiðið er að koma KFÍA í fremstu röð og keppa um titla á komandi árum.

„Það verður gert með því að því að byggja á öflugu uppeldis- og afreksstarfi og vera með þjálfara í fremstu röð. Ég tek nýjum áskorunum fagnandi og hlakka til að starfa með öflugum hópi stjórnar, starfsmanna, iðkenda og þjálfara KFÍA,“ er haft eftir Huldu á heimasíðu ÍA.

Hulda, sem er viðskiptafræðingur að mennt, starfaði áður m.a. hjá Tækniskólanum og síðustu þrjú ár hefur hún verið framkvæmdastjóri Stelpugolfs fyrir PGA á Íslandi.

Hulda verður því önnur konan sem er annað hvort framkvæmdastjóri eða formaður knattspyrnudeildar liðanna sem leika í Pepsi-deildum karla og kvenna.

Borghildur Sigurðardóttir er formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks og hefur verið síðan 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×