Skoðun

Hugsað um barn með ungbarnahermi í 10 ár

Elín Hanna Jónsdóttir skrifar
Tilgangurinn með þessum skrifum er að veita fólki innsýn í verkefnið „Hugsað um barn“ sem hefur haldið úti í grunnskólum á Íslandi frá haustinu  2004 og er því 10 ára um þessar mundir. Um 3.500 grunnskólanemendur hafa tekið þátt. Undirrituð tók þátt í þessu verkefni á meðan ríkisstjórnin veitti því brautargengi með styrk. Ég hef séð hvað unglingarnir hafa haft mikið gagn af þessu og hversu skjótt viðhorf þeirra breytast við það að fá að reyna sig í þessu tilbúna foreldrahlutverki.

Ungbarna-hermirinn kemur frá fyrirtækinu Reality works í Bandaríkjunum:  Forvarnarverkefnið „Hugsað um barn“  er verkefni sem tekur á ábyrgð, ákvarðanatöku, samskiptum og sjálfsmynd í tengslum við foreldrahlutverkið. HUB er byggt á niðurstöðum rannsókna Dr.Min Qi Wang, prófessors við Háskólann í Maryland. Í rannsóknunum var staðfest að HUB verkefnið geti gegnt lykilhlutverki í að lækka tíðni unglingaþungana ásamt dýrmætri kennslu í foreldrafærni sem nýtist síðar á ævinni (Evidence of Efficacy, Min Qi Wang,2007).

Ungbarnahermirinn er forritaður með raunupplýsingum og er því um „ekta“ þarfir að ræða, sem unglingarnir þurfa að sinna.

Verkefnið felst í því að drengir og stúlkur í 8. 9. eða 10. bekk fá ungbarna-hermi með sér heim og fá reynslu af því að annast “ungbarn” allan sólarhringinn í 2 daga. Unglingarnir þurfa að finna út hverjar eru þarfir ungabarnsins og það er misjafnt hvort gefa þarf pela, skipta um bleiu, láta barnið ropa eða hugga barnið og alltaf þarf að passa að halda undir höfuðið. Þessi reynsla felur í sér tækifæri til að læra um umönnun ungbarna, gera mistök og leiðrétta þau, án þess að það hafi áhrif á raunverulegt barn.

Spurningar vakna hjá unglingunum á meðan á verkefninu stendur og það er auðvelt fyrir foreldra að nýta þetta tækifæri til að ræða kynlíf, getnaðarvarnir og barneignir við unglinginn.

Samkvæmt rannsókn þá eru íslendingar ungir við fyrstu samfarir eða 13 ára og 9 mánaða ( Kynhegðun unglinga í 10. bekk á Íslandi,2012 Halla Ólöf Jónsdóttir bls. 26 ) og þessi tala hefur farið lækkandi,rannsóknir Sóleyjar Bender frá 1994 sögðu 15 ára og 4 mánuðir.

Verkefnið „Hugsað um barn“ er góð innsýn í veruleika þeirra sem eignast börn ungir. Tilgangurinn með því að leyfa unglingum að reyna þetta á eigin skinni, er að framkvæmd skilar sér betur en orð.

Vonandi hefur okkur tekist að fækka unglingaþungunum og um leið minnka þörfina á fóstureyðingum í þessum aldurshóp.

Árið 2013 voru framkvæmdar 963 fóstureyðingar á Ísland,12,8 stúlkur af hverjum 1.000 á aldrinum 15–19 ára gegnust  undir fóstureyðingu árið 2013 ( Talnabrunnur landlæknis 8. árg. 6. tölublað. Júní 2014)

Árið 2008 var fjöldi barna á hverjar 1.000 konur 15–19 ára á Íslandi 14,6, í Noregi 9,3, Finnlandi 8,6 og í Danmörku og Svíþjóð 6,0 (NOMESCO, 2010).

Þannig að þörfin fyrir þetta jafnréttisverkefni er enn fyrir hendi samkvæmt ofangreindum tölum. Verkefnið hefur skapað umræður í fjölmiðlum og greinilegur áhugi er á fersku og skemmtilegu forvarnar- og jafnréttisverkefni. Í “Hugsað um barn” verkefninu er þátttaka drengja og stúlkna nálægt því að vera jöfn og er það einsdæmi hvað jafnréttisstarf varðar.

Því yngri sem unglingar eru við fyrstu samfarir því meiri er hættan á smitun kynsjúkdóma og má þar nefna Klamydíu  

Flestar klamydíu greiningarnar hjá konum eru í aldurshópnum 15–24 ára en hjá körlum greinist sýkingin oftast á aldrinum 20–24 ára. Fjöldi tilkynntra klamydíusýkinga á 100.000 íbúa er hæstur á Íslandi miðað við önnur Evrópulönd ( Árskýrsla Embætti landlæknis 2013).

Árið 2013 greindust samtals 2.179 manns eða tæplega 6 tilfelli á dag og 1523 tilfelli greindust hjá ungu fólki á aldrinum 15–24 ára ( Fjöldi klamydíu tilfella á Íslandi 1997-2013 eftir kyni og ári, landlaeknir.is). Árið 2009–2010 var notkunin á smokkum komin niður í 62% hjá íslenskum unglingum (Þóroddur Bjarnason o.fl., 2011). Veturinn 2005–2006 kom fram að 15% nemendanna notuðu engar getnaðarvarnir við síðustu samfarir og 5% til viðbótar notuðu rofnar samfarir til að forðast þungun sem telst ekki getnaðarvörn.

Þann tíma sem ég vann að verkefninu „Hugsað um barn“  ræddi ég getnaðarvarnir, kynsjúkdóma og kynlíf og áfengisneyslu  unglinga bæði við unglingana og foreldra.

Verkefnið hefur alls staðar fengið góðar undirtektir og ummæli unglinga eru gott dæmi um það:

„Þetta var cool, en ég veit að ég er ekki tilbúinn að verða faðir“.

„Þetta var besta getnaðarvörnin“.

„Þetta var ömurlegt helgi! Maður gat ekki farið neitt útaf þessu drasli. Þetta var endalaust grenjandi“.

„Þetta var löng en skemmtileg helgi. Svolítið erfitt fyrst á meðan maður var að átta sig á þessu, en annars mjög gaman þegar barnið var ekki alltof erfitt“.

„Þetta var löng en skemmtileg helgi. Svolítið erfitt fyrst á meðan maður var að átta sig á þessu, en annars mjög gaman þegar barnið var ekki alltof erfitt“.

Ég vil hvetja alla þá sem hafa aðstöðu til að leggja verkefni liði til að gera það, þetta er mjög gagnlegt, þroskandi gefandi og lærdómríkt verkefni og fyrirtaks forvörn.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×