Skoðun

Hugsa fyrst, skemma svo?

Sverrir Björnsson skrifar
Nú stendur til að leggja sæstreng þvert gegnum hrygningarstöðvar helstu nytjafiska okkar Íslendinga. Línan mun hafa afgerandi áhrif á umhverfið þá áratugi sem hún er á botninum. Segulsvið raflínunnar mun spanna tugi kílómetra og menga stóran hluta af fiski á Íslandsmiðum.

Eftir að raflínan er lögð verður afar erfitt að selja íslenskan fisk sem hreina vöru. Það er reyndar hægt að grafa rafstrenginn í botninn og þá verður engin mengun af honum. Útreikningar sýna að niðurgrafinn strengur er frá því að vera helmingi dýrari upp í fimm sinnum dýrari, en kostnaðurinn er þó bara brotabrot af þeim gífurlegu verðmætum sem eru í húfi.

Hvað finnst þér réttast að gera?

Þá að raunveruleikanum og ágætt hafa í huga að á síðasta ári fór ferðamennska fram úr sjávarútvegi sem útflutningsgreinin sem skilar mestum gjaldeyri. Það á að leggja háspennulínu þvert yfir hálendið. Línan á að vera á lofti, hangandi í tugmetra háum möstrum því að það er ódýrara en leggja hana í jörðu. Sjónmengun af línunni mun ná tugi kílómetra, jafnvel hundruð, út frá henni.

Samkvæmt rannsóknum er það óspillt náttúra sem dregur langflesta ferðamenn til Íslands. Það er líka vitað að óspillt víðerni eru það sem erlendum gestum þykir merkilegast við Ísland. Nýja línan mun blasa við öllum sem leggja leið sína um hálendið, stærsta ósnortna víðerni Evrópu. Eftir að línan er komin upp verður tómt mál að tala um hálendið sem óspillt. Væri ekki ráð að hugsa sig nú aðeins um, líta til lengri tíma og reyna að taka þá ákvörðun sem best er fyrir framtíðina og mest viðskiptavit er í.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×