Skoðun

Hugrekki óskast!

Steinunn Birna Ragnarsdóttir skrifar
Það er sannarlega sorgleg staða að tónlistarkennarar séu nú í annað sinn komnir í þau spor að þurfa að grípa til verkfallsaðgerða til að berjast fyrir launum sem eru námi þeirra og störfum samboðin og á pari við það sem aðrar kennarastéttir njóta, sem verða að teljast sanngjörn markmið og eðlileg.

Tónlistargróskan á Íslandi er eitt af því sem ég er stoltust af á mínu landi og í hvert sinn sem erlendir gestir heimsækja Hörpu taka þeir undir þau sjónarmið að þessi gróska skapi okkur mikil verðmæti.

Hún er sameiginlegur auður allra landsmanna alveg eins og tónlistarhúsið okkar.

Það er einmitt samhengið sem er mér svo hugleikið þessa dagana. Það skýtur skökku við að á sama tíma og húsið er að stíga sín fyrstu spor á langri ævi og skapa sér virðingarsess í alþjóðlegu samhengi skuli vegið að grunnstoðunum, þ.e. tónlistarnáminu sem er sá jarðvegur sem öll gróskan sprettur upp úr. Ef húsið á að geta dafnað verður þessi undirstöðugrein að njóta sannmælis og fá alla þá næringu sem henni ber.

Ég gæti haft um það mörg orð hvað tónlistin skiptir okkur miklu máli, eykur lífsgæði okkar og gleði, en þetta finna allir á eigin skinni mörgum sinnum á dag svo það þarf ekki að fjölyrða um það. Ég bið þig samt lesandi góður að íhuga eitt mikilvægt andartak hvað við yrðum öll fátækari ef tónlistarinnar nyti ekki við.

Nú þegar hafa næstum því milljón manns notið tónlistarflutnings í Hörpu. Það þurfti mikið hugrekki til þegar sú ákvörðun var tekin að ljúka við byggingu hússins og þeir sem í hlut áttu sýndu mikla framsýni. Það þarf hugrekki til að sjá stóra samhengið og tjalda ekki bara til einnar nætur heldur hugsa stórt og hugsa langt.

Það er nákvæmlega hugrekkið sem ég kalla nú eftir til að tryggja að ein mikilvægasta verðmætasköpun okkar og stolt sem þjóðar, þ.e. tónlistin og tónlistarnámið verði ekki gengisfellt með ófyrirséðum afleiðingum fyrir okkur öll.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×