Lífið

Hugrás: Sigldar ljósmæður

Erla Doris Halldórsdóttir skrifar
Íslenskar ljósmæður í Kaupmannahöfn
Íslenskar ljósmæður í Kaupmannahöfn
Einn er sá hópur Íslendinga sem hleypti heimdraganum á 19. öld og sigldi til höfuðborgar Íslands, Kaupmannahafnar, en hefur litla sem enga umfjöllun fengið í fræðiritum. Það eru þær konur sem lærðu ljósmóðurfræði í Kaupmannahöfn. Eftir heimkomuna voru þær nefndar „sigldar ljósmæður“.

Phantom til kennslu

Á 119 árum, eða frá 1836 til 1955, sigldu 48 íslenskar konur til Kaupmannahafnar til að nema ljós­móður­fræði við eina ljósmæðraskólann í Danmörku á 19. öld og fram á þá 20. Skólinn var starfræktur í hinni konunglegu fæðingarstofnun í borginni. Konurnar sem héðan sigldu voru margar ungar að árum, sú yngsta 21 og elsta 44 ára. Allar komu þær heim að námi loknu ef frá eru taldar tvær sem urðu eftir og giftust dönskum mönnum.

Það sem þessar konur höfðu fram yfir aðra ljósmæðranema á Íslandi var að þær öðluðust mun meiri verklega þjálfun í fæðingarhjálp þann tíma sem þær voru á fæðingarstofnuninni. Þær tóku á móti börnum í eðlilegum fæðingum jafnt sem vandasömum. Hér á landi sáu læknar alfarið um að kenna konum ljósmóðurfræði og svo hafði verið frá árinu 1761 en algjörlega skorti umgjörð um námið. Árið 1829 fékk landlæknir sent frá Kaupmannahöfn sérstakt kennslutæki sem hann notaði við verklega kennslu í fæðingarhjálp. Það var phantom, líkan af æxlunarfærum kvenna, og í því var brúða eins og fóstur í legi. Með þessu líkani var hægt að sýna fóstur í ýmsum fæðingarstöðum.

Á Íslandi var engin fæðingarstofnun starfrækt og engin vissa fyrir því að ljósmæðranemar gætu verið viðstaddir fæðingar meðan á náminu stóð. Því reyndist phant­omið mikilvægt kennslugagn en það var þó ekki það sama og að fá að meðhöndla konu í fæðingu og taka á móti barni.

Kennslustund í hinni konunglegu fæðingarstofnun.
Lægri laun en vinnukona



Haustið 1859 sigldi ung kona frá Akureyri til Kaupmannahafnar eftir áeggjan frá Jóni Finsen, héraðslækni á Akureyri. Þetta var Rósa Jónsdóttir, 21 árs bóndadóttir úr Melgerði í Eyjafirði. Hún hafði fengið inni á Jordemoderskolen. Konur sem sóttu þar um áttu samkvæmt inntökuskilyrðum að vera giftar eða ekkjur og hafa sjálfar fætt börn því ætlast var til að þær hefðu upplifað sársaukann við að ala barn.

Stjórn Jordemoderskolen setti það þó ekki fyrir sig að Rósa var ógift og barnlaus. Vel má vera að ástæðan hafi verið sú að Solveig Pálsdóttir, 21 árs, sem siglt hafði frá Vestmannaeyjum til Kaupmannahafnar 18 árum áður, hafði verið tekin inn í skólann án þess að vera gift og hafa alið barn. Hún fékk inngöngu með sérstöku leyfi Danakonungs 9.?september 1841.

Í september árið 1859 hóf Rósa nám við Jordemoderskolen. Þar var hún í sjö mánuði og bjó á meðan á fæðingarstofnuninni. Hún stundaði námið ásamt sex öðrum konum frá Danmörku. Þær luku allar ljósmæðraprófi 30. apríl 1860 með fyrstu einkunn. Um sumarið sigldi Rósa til Íslands. Hún var skipuð ljósmóðir í Eyjafjarðarsýslu. Launin sem hún fékk eftir allt erfiðið í námi voru einungis tveir ríkisdalir á ári sem voru lægri en vinnukonulaun.

Ljósmæðranemar fóru út á næturnar að leita kvenna sem voru komnar að fæðingu.
Vökur og vinnuharka



Einu upplýsingarnar sem mér eru kunnar um það hvernig náminu var háttað á Jordemoderskolen í Kaupmannahöfn eru skjal ritað árið 1883 af Ólöfu Sigurðardóttur frá Hlöðum, en hún hóf nám við skólann haustið 1882.Þar kemur fram að námið tók sjö til átta mánuði.

Allt starfsfólk bjó á fæðingarstofnuninni; prófessorinn, þrír aðrir læknar, tvær ljósmæður og svo 10 til 12 ljósmæðranemar. Í frásögn Ólafar kemur einnig fram að vinnuharka var mikil. Áður en kennsla hófst skoðaði prófessorinn nákvæmlega hendur allra námskvenna og lét hann þær strax fara ef hann mat ástand handa þeirra þannig að þær gætu ekki sinnt starfinu.

Sú hugmynd að ljósmæður ættu að hafa ákveðna lögun á höndum er forn og má rekja hana til Soranos, grísks læknis frá Efesus­ sem uppi var á annarri öld eftir Krist. Í bók sem hann skrifaði fyrir ljósmæður kemur fram að þær urðu að hafa fíngerðar hendur, langa og mjóa fingur. Það var til að þær gætu þreifað fingri eða fingrum upp í fæðingarveg.



Ljósmæðranemar áttu að sinna öllum störfum sem fæðingarhjálp útheimti, undir umsjón ljósmóður. Þær tóku á móti konum sem komu á stofnunina til að fæða. Þær áttu að geta sagt til um legu og stöðu barns fyrir fæðingu og áttu að kunna nákvæmlega öll handtök í fæðingarhjálp. Einnig áttu nemar að hafa nákvæmt eftirlit með móður og barni eftir fæðingu.

Hvern morgun og kvöld komu prófessorinn, læknarnir og ljósmæðurnar inn á hvert herbergi þar sem sængurkona lá og skyldi þá ljósmæðraneminn gefa greinargóðar upplýsingar um ástand móður og barns og sýna að allt væri í reglu hvað umsjón sængurkonu snerti. Ólöf hafði einnig þetta að segja um námið:

„Hamingjan hjálpi þeirri námskonu sem hirðulítil er um köllun sína,“ því prófessorinn var vandlátur og sagði stranglega til þeirra yfirsjóna sem áttu skylt við hirðuleysi. Oft kom það fyrir að ljósmæðraneminn hafði margar sængurkonur að gæta í senn og jafnvel vaka nótt eftir nótt. Sagði prófessorinn að ljósmæðraneminn væri ekki fær um að gegna köllun sinni ef hún þyldi ekki að vaka. Jafnframt því að sinna ljósmóðurstörfum sáu nemar um að halda börnum undir skírn á stofnuninni því oft kom fyrir að mæður skildu börnin eftir til ættleiðingar.

Læknar og ljósmæður við hina konunglegu fæðingarstofnun í byrjun 20. aldar
Íslensk embættisljósmóðir



Engar upplýsingar finnast um líðan þeirra 48 íslensku kvenna sem voru við Jordemoderskolen á árunum 1836 til 1955, fyrir utan frásögn af Ragnheiði Jónsdóttur sem var 44 ára, gift og fimm barna móðir. Hún lauk ljósmæðraprófi í Reykjavík árið 1833 og átti að námi loknu að taka við sem embættisljósmóðir í Reykjavík og aðstoða landlækni við verklega kennslu ljósmæðranema. Ragnheiður hóf nám við Jordemoderskolen árið 1836, en er 86 dagar voru liðnir af námstímanum var henni allri lokið. Hún var haldin slíkri heimþrá að leggja varð hana inn á sjúkrahús í borginni þar sem hún dvaldi um tíma. Hún kom aftur til Íslands án þess að hafa lokið prófi frá fæðingarstofnuninni. Þrátt fyrir það var hún skipuð embættisljósmóðir Reykjavíkur þann 7. október 1839, fyrst íslenskra kvenna, en áður höfðu aðeins danskar lærðar ljósmæður gegnt þeirri stöðu.

Af þeim 48 íslensku konum sem luku námi frá fæðingarstofnuninni í Kaupmannahöfn voru átta giftar og höfðu fætt börn. Ein kvennanna var skilin. Önnur, Margrét Skúladóttir, 27 ára, eignaðist barn á stofnuninni á meðan hún var við ljósmæðranám. Hún hafði gift sig í Vestmannaeyjum 25. júní árið 1851, Vigfúsi Jónssyni sjómanni. Sama haust sigldi Margrét barnshafandi frá Vestmannaeyjum og byrjað í ljósmæðranáminu í september eða október. Á jóladag árið 1851 fæddi Margrét dreng, Markús Vigfús, á fæðingarstofnunni og eftir fæðingu bjó hún áfram þar ásamt barninu. Margrét lauk ljósmæðraprófi þann 16. júní 1852 þ.e. átta til níu mánuðum eftir að hún hóf námið. Eftir það hélt hún með litla drenginn sinn til Íslands og varð ljósmóðir í Vestmannaeyjum.

Mjaðmagrindarlíkan (phantom) með dúkku.
Boðberar þekkingar



Tæplega helmingur kvennanna hafði lokið ljósmæðraprófi á Íslandi áður en þær héldu utan og hófu annað ljósmæðranám á Jordemoderskolen. Þar luku þær síðan prófi eins og aðrar ljósmæður sem voru að læra fagið frá byrjun. Ástæðan var sú að árið 1875, þegar fyrstu ljósmæðralög voru sett hér á landi, gat engin hlotið skipun ljósmóður í Reykjavík nema að hafa lært á fæðingarstofnuninni í Kaupmannahöfn og gengist þar undir próf. Árið 1912 voru sett lög um fyrsta ljósmæðraskóla á Íslandi, en það var ekki fyrr en árið 1933 sem tekin voru út ákvæði í lögum um að ljósmæður í Reykjavík yrðu að hafa próf frá Kaupmannahöfn.

Árið 1933 lauk því þeim kafla í sögu íslenskra ljósmæðra að þurfa að sækja menntun sína til Kaupmannahafnar. En vissulega má með réttu segja að þær íslensku konur sem luku námi frá Jordemoderskolen á 19. og fram á 20. öld hafi flutt heim með sér lærdóm og ómetanlega reynslu að námi loknu. Voru þær sannarlega boðberar nýrrar þekkingar í fæðingarhjálp, þekkingar sem var ljósmæðrastéttinni til framdráttar og til líknar og hjálpar fæðandi konum á Íslandi.

Greinin er unnin upp úr fyrirlestri á Hugvísindaþingi 11. febrúar 2016, í málstofunni „Atbeini Íslendinga í Kaupmannahöfn á 19. öld“. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. apríl 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×