Innlent

Hugmyndirnar „sjálfsmorðsárásir örvæntingarfullra formannsframbjóðenda“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar.
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar. vísir/stefán
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir hugmyndir Magnúsar Orra Schram um að leggja niður Samfylkinguna og stofna nýjan flokk einungis ákall örvæntingarfulls formannsframbjóðanda. Flokkurinn eigi alla möguleika á að dafna vel, fái hann frið fyrir fólki með slíkt hugarfar.

„Ég tel það ekki vænlegt til árangurs að dauðadæma liðið í miðjum leik. Ef leikmenn sjálfir gera það og gefa sér það að áhaldið sé ónýtt þá er það ekki vænlegt til árangurs. Samfylkingin á fullt erindi sem stjórnmálaflokkur og á að vera burðarflokkur í íslenskri pólitík,“ segir Ólína í samtali við Vísi.

Hún segir að skerpa þurfi á forystu flokksins og í kjölfarið þurfi flokksmenn að taka höndum saman fyrir þau málefni sem flokkurinn standi fyrir. „Þetta tal um að leggja flokkinn niður og hann sé orðinn ónýtur og skipta um vörumerki, þetta er hégómi. Það liggur miklu meira undir núna heldur en að það taki því að vera í þessari umræðu eins og sakir standa.“

En flokkurinn virðist standa á brauðfótum, eins og sakir standa, með innan við tíu prósenta fylgi?

„Hann stendur á brauðfótum vegna þess að hann á í forystukreppu. Nú erum við að skerpa línurnar í forystumálunum á landsfundinum sem verður í júní og þetta bara tekur sinn tíma, eins og þegar lindin er að fyllast. Þegar forystumálin eru orðin skýrari og það verða komnar skarpari málefnaáherslur í tengslum við nýjan formann flokksins þá hef ég trú á því að við getum einbeitt okkur að því sem flokkurinn þarf að vinna að, sem eru þessar málefnaáherslur fyrir næstu kosningar. Þá kemur fylgið,“ segir Ólína.

Hún segist ekki vilja svara til um hvort hún hyggist halda áfram í flokknum, nái Magnús Orri kjöri og hugmyndir hans fram að ganga. „Ég mun að sjálfsögðu standa með þeim formanni sem flokkurinn velur til forystu þegar þar að kemur. Magnús Orri er félagi minn og mér þykir vænt um hann. En ég er ósammála honum hér og tel rétt að hann viti það.

Ólína hefur jafnframt birt Facebook-færslu þar sem hún biður flokknum vægðar, en færsluna má sjá hér fyrir neðan.

„Því miður hefur nokkur misbrestur orðið á því innan Samfylkingarinnar þar sem menn keppast nú við að gefa út dánarvottorðið af því þeir sjá ekki fram á að ráða ferðinni sjálfir. Ég bið flokknum vægðar gegn þessum sjálfsmorðsárásum örvæntingarfullra formannsframbjóðenda,“ segir hún. Þeir sem starfi í flokknum af heilindum og hugsjón eigi þetta ekki skilið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×