Innlent

Hugmyndir Illuga þykja stórfurðulegar

Jakob Bjarnar skrifar
Kristján B. segir það hvergi þekkjast á byggðu bóli að komið sé upp flokkunarnefnd ríkisins á mikilvægi bóka, eins og Illugi Gunnarsson leggur til.
Kristján B. segir það hvergi þekkjast á byggðu bóli að komið sé upp flokkunarnefnd ríkisins á mikilvægi bóka, eins og Illugi Gunnarsson leggur til.
Útgefendur og rithöfundar eru æfir vegna fyrirhugaðrar hækkunar virðisaukaskatts á bækur og hafa að undanförnu birst þungorðar greinar bókafólks sem beinast að stjórnvöldum. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hefur hunsað útgefendur sem ítrekað hafa kallað eftir fundi með honum en nýverið kom þó útspil frá Illuga þar sem hann kynnir hugmyndir um mótvægisaðgerðir; þá að undanskilja ákveðnar tegundir bóka virðisaukaskatti. Útgefendur reka upp stór augu, þeirra á meðal fræðibókaútgefandinn Kristján B. Jónasson:

„Að hafa lágan virðisaukaskatt á bækur er langeinfaldasta og öflugasta aðgerð sem stjórnvöld geta beitt ef þau vilja styðja við bókaútgáfu á íslensku, yfirleitt. Kosturinn við lágan virðisaukaskatt á bækur er að þá er aldrei verið að hygla einni bókmenntategund umfram aðra. Það er ekki stjórnvalda að taka ákvörðun um það hvort barnabók, sem er kannski afþreyingarbók, eða bók sem er kennslubók, eða matreiðslubók eða einhver slík... sé betri eða verri eða mikilvægari en aðrar bækur. Allir sem eru að gefa út bækur á Íslandi, það er fjöldi aðila, yfir hundrað lögaðilar sem gefa út bækur á hverju ári og þeir eru að gefa út ýmiskonar bækur og það sem tryggir fjölbreytni á markaði er að menn vita að það allir sitja nokkurn veginn við sama borð. Það að skipuð sé einhver flokkunarnefnd ríkisins á bækur er stórfurðuleg hugmynd og þekkist hvergi á byggðu bóli. Eða, ekki svo ég viti til.“

Má þá jafnvel ganga svo langt að segja að hugmynd Illuga sé beinlínis galin?

„Jahh, sko. Fyrst og fremst, útspilið snýst um það að ákveðnar tegundir bókmennta verði settar í lægra þrep, eða ekki þrep og aðrar í hærra þrep. Og allir vita að þar með er verið að flækja kerfið en ekki einfalda það,“ segir Kristján B. Jónasson útgefandi, og er fremur þungt í honum hljóðið.

Kristján nefnir aðrar stuðningsaðgerðir, sem hann talar um sem ákjósanlegar, ekki að þær snúist um að „ákveða fyrirfram hvaða bækur eru merkilegri en aðrar. Markaðurinn; útgefendur, höfundar og lesendur eru fullfærir um að meta það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×