Menning

Hugmynd um hljóm sem gæti hafa verið til

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Berglind María með lokk. Hún ætlar að flytja verk eftir Karólínu Eiríksdóttur, Þórunni Grétu Sigurðardóttur og sjálfa sig í Þorláksbúð á morgun.
Berglind María með lokk. Hún ætlar að flytja verk eftir Karólínu Eiríksdóttur, Þórunni Grétu Sigurðardóttur og sjálfa sig í Þorláksbúð á morgun. Vísir/anton Brink
Lokkur er fantasía um gamalt hljóðfæri sem hefur gengið í endurnýjun lífdaga,“ segir Berglind María Tómasdóttir glaðlega, þar sem hún mundar heimagert hljóðfæri úr gömlum rokk og nýju langspili.

„Þetta er sama hugmynd og í hurdy gurdy sem eru þekkt þjóðlagahljóðfæri í Mið-Evrópu og Bandaríkjunum. En í stað boga er hjól í mínu hljóðfæri, sem snýst og strýkur streng. Útkoman er hugmynd um hljóm sem gæti hafa verið til fyrir löngu síðan.“

Berglind María spilar á lokkinn á morgun klukkan 16, á fyrsta degi Sumartónleika í Skálholti, í því umdeilda húsi Þorláksbúð. „Svolítið sniðugt að spila þar á hljóðfæri sem er tilbúningur,“ bendir hún á og kveðst fá góðan gest þangað með gömul hljóðfæri.

En hátíðin hefst klukkan 14 með tónleikum Camerata Listaháskóla Íslands undir stjórn Sigurðar Halldórssonar og á sunnudag munu kór og sinfóníetta tónlistardeildar sama skóla flytja efnisskrá með verkum eftir hinn níræða Jón Nordal sem er heiðurstónskáld hátíðarinnar í ár.

Sumartónleikar í Skálholti er elsta hátíð sinnar tegundar á Norðurlöndunum og er nú haldin í 42.?sinn. Hún heldur áfram allar helgar í júlí með tónleikum klukkan 14 og 16 þar sem virtir flytjendur koma fram og má nefna hópana Caput, Hljómeyki og Nordic Affect.

Einnig barokkbandið Brák sem er skipað ungu kynslóðinni. Að venju er sérstök áhersla lögð á barokk og samtímatónlist og sem fyrr er aðgangur ókeypis en tekið við frjálsum framlögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×