Menning

Hugmynd dótturinnar hrundið í framkvæmd

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Fjölskyldutónar hljóma í Hannesarholti á sunnudag hjá Sesselju, Kolbeini Tuma, Gunnhildi, Júlíu og Daða.
Fjölskyldutónar hljóma í Hannesarholti á sunnudag hjá Sesselju, Kolbeini Tuma, Gunnhildi, Júlíu og Daða.
„Þetta er allt Gunnhildi, dóttur okkar, að þakka eða kenna. Hún átti hugmyndina,“ segir Daði Kolbeinsson óbóleikari glaðlega um fjölskyldutónleika í Hannesarholti á sunnudaginn klukkan 16. Þar spilar hann ásamt konu sinni, Sesselju Halldórsdóttur víóluleikara, og börnum, Gunnhildi fiðluleikara og Kolbeini Tuma á píanó. Til að fullkomna stemninguna fengu þau vinkonu þeirra allra, Júlíu Mogensen, með á selló.

Á dagskránni eru óbókvartettar eftir Mozart og Bach auk fjögurra verka með fiðlu í aðalhlutverki. Þar er meðal annars nýtt einleiksverk sem Hildigunnur Rúnarsdóttir samdi sérstaklega fyrir Gunnhildi.

Daði og Sesselja eiga yfir 40 ára feril að baki með Sinfóníunni og hafa látið þar af föstum störfum. „Það orðaði einhver svo að við værum að útskrifast,“ segir Daði kíminn. Sesselja kveðst enn vera í afleysingum en fá ágætar pásur á milli og þá geti hún sinnt barnabörnunum. Daði tekur í sama streng. „Þegar ég hætti að vinna var ég strax kominn í barnapössun. Svo er ég dálítill golf­fíkill og stunda skíðagöngu þegar færi er svo ég kann þessu nýja lífi ágætlega.“

Þau hjón kynntust í Sinfóníunni. Sesselja kveðst hafa verið í sveitinni frá 1970 með námshléum. „Margir litu ekki á þetta sem fullt starf en ég get staðfest að svo sé. Tekist er á við nýtt verkefni í hverri viku og því fylgir mikil vinna en hún er skemmtileg.“

Daði er skoskur í grunninn, hann var langt kominn í námi í London þegar hann var beðinn að gerast óbóleikari á Íslandi í nokkrar vikur. „Ég stökk á það, hljóðfæraleikari segir aldrei nei!“

Hann flaug til landsins 23. janúar 1973, daginn sem Vestmanneyjagosið hófst og fyrsta æfing var morguninn eftir.

„Ég var að spila í London seint á laugardagskvöld, keyrði norður til Edinborgar til að ná flugi en lenti í byl á leiðinni, festi bílinn og varð að sofa í honum um nóttina. Náði vélinni og flaug þá í fyrsta skipti, nýorðinn 22 ára. Um leið og ég settist var mér rétt dagblað og á forsíðu var frétt um flugslys, þar sem sams konar vél og ég var kominn upp í hafði farist.

Við vorum bara tíu farþegarnir, erlendir fréttamenn voru ekki búnir að kveikja á því að koma til Íslands að skoða eldgos. Sjálfur hafði ég ekki hugmynd um það en eftir þriggja tíma flug var mikið talað á íslensku í talkerfið, þá var flugstjórinn að reyna að gefa útsýni yfir gosið en tókst ekki, það var svo lágskýjað.“

Daði segir æðislegt að búa á Íslandi. „Hér hef ég fengið tækifæri sem ég hefði aldrei fengið annars staðar,“ segir hann og nefnir þar einleik með Sinfóníunni og þátttöku í Kammersveit Reykjavíkur og Blásarakvintett Reykjavíkur. Að ógleymdu einkalífinu.

„Við Sesselja rugluðum saman reytum 1980. Hún var ákveðin í að segja ekki já fyrr en öruggt væri að ég ílentist á Íslandi. Ákvörðunin var mín, svo fórum við að búa!“ 

Spurð hvort fjölskyldutónleikarnir á sunnudaginn séu kannski upphafið að nýjum ferli brosir Sesselja efablandin. „Ég veit það nú ekki en ég vona að allir komist óskaddaðir frá þessu.“ Hún bendir á að hægt sé að fá kaffi í Hannesarholti. „Það er svo huggulegt þar að mann langar helst að setjast þar að.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. mars 2017






Fleiri fréttir

Sjá meira


×