Skoðun

Hugleiðingar á kvenréttindadaginn

Hildur Sólveig Ragnarsdóttir skrifar
Í dag á kvenréttindadaginn leita á hugann hugleiðingar um stöðu kvenna. Hugleiðingar um stöðu okkar ljósmæðra. Hugleiðingar um það ástand sem mun skapast á Landspítalanum í sumar og hugleiðingar um framtíðina. Margt hefur breyst frá því að konur fengu fyrst kosningarétt fyrir rúmun 100 árum síðan á þessum degi en enn eru störf kvenna ekki metin jafnt til launa og störf karla.

Enn er ósamið við ljósmæður eftir rúmlega níu mánaða viðræður. Mikil von var að samningar næðust fyrir sumarið. Ríkisstjórnin hefur jú gefið það út að það ætti að rétta hlut kvennastétta. Núna eftir örfáa daga eða 1. júlí munu margar reynslumiklar ljósmæður ganga út af Landspítalanum. Ég hef miklar áhyggjur af því ástandi sem mun skapast. Ég er ein af þeim sem hef ekki sagt upp starfi mínu og mun standa vaktina í sumar á Fæðingarvaktinni. Mikið álag er á deildinni og þá sérstaklega á sumrin og hef ég sem vaktstjóri staðið mjög erfiðar vaktir það sem er af sumri. Starf ljósmæðra í dag eru miklu flóknara heldur en það var áður. Ég velti því fyrir mér hvernig þetta verður í júlí.

Til þess að ráðamenn átti sig á stöðunni langar mig að reyna að lýsa einni vakt eins og hún getur verið. Ég mæti á næturvakt og er vaktstjóri. Það eru allar stofur fullar, eins og svo oft áður. Á nóttunni erum við 6 ljósmæður á vakt. Við erum með 9 fæðingastofur þannig að þetta er ekki flókið reiknidæmi. Á einni stofunni er mjög veik kona með versnandi meðgöngueitrun. Það þarf að bregaðast fljótt við. Blóðþrýstingurinn upp úr öllu valdi. Ekkert virkar, þetta er orðið grafalvarlegt. Konan endar á dreypi sem heldur ástandinu í jafnvægi. Það verður að fylgjast mjög náið með konunni næstu 24 tímana. Ljósmóðir sinnir konunni og víkur ekki út af stofunni alla vaktina. Á annari stofunni er blæðing, við náum að stoppa blæðinguna og síðan er rokið með konuna á skurðstofu. Neyðarbjallan hringir, það er kona að blæða á annarri stofu. Hleyp þangað. Hringir bjalla, það vantar aðstoð við fæðingu. Hringir síminn, það er kona á leiðinni, alveg við það að fara að fæða. Hringir síminn, það er kona að koma með minnkaðar hreyfingar. Hringir bjalla, ljósmóðirin sem hefur verið föst í yfirsetu þarf afleysingu í 5 mínútur. Ég leysi hana af. Hringir bjalla, kona sem er í gangsetningu er farin af stað. Mig vantar aukahendur. Hleyp fram og reyni að hringja í ljósmóðir til að koma að aðstoða okkur. Eftir nokkur símtöl svarar ljósmóðir kallinu. Kemur til okkar um miðja nótt í sínu vaktafríi. Hringir bjalla. Hringir sími.

Svona er ástandið ansi oft hjá okkur á vaktinni og því hef ég mjög miklar áhyggjur af sumrinu þegar ljósmæður ganga út.  Hversu langt á að láta þetta ganga? Hvenær ætla ráðamenn að bregðast við.

Vegna yfirvofandi ástands hef ég verulega íhugað stöðu mína sem ljósmóðir. Þetta er mikið ábyrgðastarf og mikið í húfi. Getur maður sætt sig við þetta. Að fá ekki starf sitt metið til launa er ekki ásættanlegt. Ljúkum þessu sem fyrst áður en í óefni fer.

Gleðilegan 19.júní!

Höfundur er ljósmóðir.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×