Innlent

Hugðist drepa sig en stofnar nú félag fólks með Wilson-sjúkdóminn

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Guðmundur var langt leiddur af þunglyndi en komst á bataveg þegar hann fékk loks rétta sjúkdómsgreiningu.
Guðmundur var langt leiddur af þunglyndi en komst á bataveg þegar hann fékk loks rétta sjúkdómsgreiningu.
„Ég var orðinn það langt niðri að ég ætlaði að fara að drepa mig,“ segir Guðmundur Pálmason á Dalvík sem gengst fyrir stofnun samtaka fyrir þá sem eru með Wilson-sjúkdóminn.

Guðmundur segir aðeins átta manns á Íslandi með Wilson-sjúkdóminn en hann veldur því að kopar safnast upp í heila og lifur sjúklinganna. Einkennin séu afar mismunandi eftir einstaklingum. Til dæmis hafi ein konan sem þjáist af sjúkdómnum hérlendis þurft að fara í lifrarskipti.

Sjálfur kveðst Guðmundur, sem er 32 ára, hafa veikst fyrir um þremur árum. Sjúkdómurinn hafi þó ekki verið greindur fyrr en í byrjun þessa árs eftir mikla þrautagöngu sem einkennst hafi af skelfilegu þunglyndi. „Læknirinn dældi bara í mig þunglyndislyfjum og þau virkuðu ekki neitt,“ segir hann.

Guðmundur segir það hafa verið yndislegt að fá loks skorið úr um hvað gengi að honum. Þá hafi hann komist í viðeigandi meðferð og þunglyndið sé algerlega á bak og burt. Hann glími þó enn við mikið máttleysi í fótum og sé ekki enn kominn til baka til vinnu.

„En ég fer vonandi að vinna í Húsasmiðjunni eftir áramót,“ segir Guðmundur vongóður. „Ég þarf að vera á lyfjum alla ævi. Það er ekki hægt að losna við sjúkdóminn en það er hægt að halda honum niðri. Ég mun ná fyrri styrk; ég veit bara ekki hvort það tekur tuttugu daga eða tuttugu ár.“

Stofnfundurinn verður á föstudag klukkan fjögur á Center Hotel Plaza í Reykjavík sem Guðmundur segir veita nýja félaginu endurgjaldslaus afnot af sal í hótelinu. „Markmiðið hjá mér er að ná í sérfræðiþekkingu að utan; að fá fyrirlesara og lækna til landsins,“ segir Guðmundur sem kveður ekki mjög mikla þekkingu til hérlendis um þennan sjaldgæfa sjúkdóm. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×