Lífið

Húfur til höfuðs einelti í Bolungarvík

Guðrún Ansnes skrifar
Hópurinn sæll og glaður með húfurnar sínar. Ragnhildur segist vona að verkefnið taki sig upp víðar.
Hópurinn sæll og glaður með húfurnar sínar. Ragnhildur segist vona að verkefnið taki sig upp víðar.
Ragnheiður I. Ragnarsdóttir tók sig til og töfraði fram úr erminni sextán prjónaðar eineltishúfur á heilan fyrsta bekk í Grunnskólanum í Bolungarvík. Ragnheiður á son í bekknum.

„Þetta var nú ekki mikið mál, held það hafi tekið mig einn og hálfan mánuð að prjóna þessar,“ segir Ragnheiður, sem þó segist engin framleiðsluvél þegar kemur að prjónaskap.

Hún lét til skarar skríða og mundaði prjónana er hún hnaut um svipaðar húfur á norskri prjónasíðu og þar sagði að húfurnar hefðu fengið ágætis meðbyr þar í landi í baráttunni gegn einelti.

„Mér datt í hug að yfirfæra þær á íslensku og sex ára gamall sonur minn elskaði húfuna sem ég gerði fyrst, svo úr varð að ég bar hugmyndina undir umsjónarkennara bekkjarins. Hún tók svona líka vel í hana.“

Úr varð að kennarinn, Guðmunda Hreinsdóttir, fór af stað með heljarinnar verkefni tengt húfunum. „Það er ofsalega gaman að foreldrar skuli taka frumkvæðið í sínar hendur,“ útskýrir Guðmunda.

Guðmunda segir mikilvægt að byrja strax að innprenta börnunum að einelti líðist ekki og því frábært að fara af stað með þetta verkefni í fyrsta bekk.

Húfurnar eru svipaðar í grunninn en allar ólíkar. „Rétt eins og við öll, við erum einstök og það ber að muna,“ segir Guðmunda sem vonar að húfurnar verði áminning um ókomin ár, um að hafna einelti. Ragnheiður segist jafnframt hafa orðið vör við áhuga annarra skóla á þessari óvenjulegu leið. „Auðvitað væri það ekki nema frábært að koma kannski af stað trendi í þessu,“ en húfurnar eru vissulega ákveðin yfirlýsing þess sem ber hana. 


Tengdar fréttir

Út að borða – gegn ofbeldi á börnum

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa starfað að réttindum og velferð barna á Íslandi og erlendis í 25 ár. Samtökin eru aðili að Save the Children International sem eru stærstu frjálsu félagasamtök í heiminum sem vinna eingöngu í þágu barna.

Vinátta og samtal

Við sem skrifum þessa grein eigum margt sameiginlegt. Bæði vinnum við með börnum, við erum kennari og æskulýðsprestur, okkur eru trúarhefðir okkar kærar, við erum múslimi og kristinn, og við viljum að um trú okkar og hefðir sé rætt af sanngirni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×