Lífið

Húðflúraður gospelkór syngur jólalög

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Margir kórmeðlimir gospelkórsins skarta húðflúrum.
Margir kórmeðlimir gospelkórsins skarta húðflúrum. mynd/folkogflur.is
„Einn morguninn þegar ég var að setja morgunmatinn á borðin sá ég að tveir þriðju kórmeðlima voru með húðflúr,“ segir Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur og verkefnastjóri Gospelkórs Jóns Vídalíns.

Gospelkórinn fór á dögunum í æfingabúðir og sá Jóna um matseld fyrir kórmeðlimi, þegar kórmeðlimir tíndust inn í morgunmat rak hún augun í að fjöldi þeirra skartaði litríkum húðflúrum. „Ég hef aldrei séð svona samansafn af fólki með jafn litríkar myndir á eigin skinni,“ segir hún hlæjandi.

Í kjölfarið datt henni í hug að láta mynda húðflúr kórfélaga í stað hinnar hefðbundnu kórmyndar og nota til þess að auglýsa jólatónleika kórsins.

Gospelkórinn hefur verið starfræktur frá árinu 2006 og er aldursbil kórmeðlima frá 16-30 ára en Davíð Sigurgeirsson er kórstjóri. „Krakkarnir koma alls staðar að, úr ýmsum mennta- og fjölbrautaskólum,“ segir Jóna, en hún segir gospeltónlist mikinn gleðigjafa.

„Þetta er gleði og sálartónlist. Í henni er ákveðið frelsi og það er svo gaman þegar þau eru að syngja,“ segir Jóna, en lagavalið á jólatónleikunum verður fjölbreytt og meðal annars verður flutt jólalag með texta eftir tenórinn Sigurð Breiðfjörð Þorsteinsson sem er einn kórmeðlima.

Jólatónleikar gospelkórs Jóns Vídalíns verða haldnir í hátíðarsal Fjölbrautaskólans í Garðarbæ í kvöld klukkan átta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×