Handbolti

HSÍ bíður eftir svörum frá Selfossi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ekki er víst að Selfoss geti spilað heimaleiki sína í Olís-deildinni í vetur í Vallaskóla en HSÍ gerir ýmsar athugasemdir við húsið.

HSÍ segir að aðstæður í húsinu séu ekki boðlegar fyrir leiki í efstu deild. Meðal annars er sett út á öryggissvæði við varamannabekki, körfur á veggjunum sem ná inn á völlinn og að tímavarðarborðið sé nánast inn á vellinum.

Aðstæður fyrir blaðamenn eru heldur ekki góðar og útilokað sé að vera með beinar útsendingar úr húsinu.

„Við tókum út húsin þarna í júní. Við sendum skýrslu inn til bæjarfélagsins og íþróttafélagsins og höfum í raun ekki fengið neitt svar frá þeim hvað þeir ætli sér að gera,“ segir Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ.

Á Selfossi er annað íþróttahús, Iða, þar sem FSu hefur meðal annars spilað sína leiki í Dominos-deildinni í körfubolta.

„Þar er miklu betra svæði í kringum völlinn og mun hentugra hús.“

Þar hefur aftur á móti ekki mátt nota handboltaklístur. HSÍ bíður enn eftir svörum en stutt er í að mótið hefjist þannig að málið þarf að leysast fljótlega.

Hlusta má á viðtal Guðjóns Guðmundssonar við Einar hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×