Innlent

Hrunið í laxveiðinni

Jakob Bjarnar skrifar
Stefán Jón segir uppgjörstíma blasa við en Óðinn vill meina að tal um hrun sé á misskilningi byggt.
Stefán Jón segir uppgjörstíma blasa við en Óðinn vill meina að tal um hrun sé á misskilningi byggt.
Uppgjörstölur um laxveiði liggja að verulegu leyti fyrir, hrun er niðurstaðan og veiðimenn gagnrýna veiðileyfasala harðlega fyrir himinhátt verð, sem þeir segja ekki í nokkru samhengi við verðlagsþróun né veiðivonina sjálfa.

Á vef Landssambands veiðifélaga má sjá tölur yfir veiði þessa tímabils og þess síðasta. Þessar tölur eru sláandi. Ef til dæmis er litið til hinnar vinsælu Norðurár þá eru lokatölur þar nú 924 laxar. Í fyrra voru veiddir laxar 3351. Í Langá er staðan ekki betri, í ár hafa veiðst 580 laxar en í fyrra settu veiðimenn í 2815 laxa. Og þannig má áfram telja.

Stefán Jón Hafstein er einn þekktasti veiðimaður landsins, hann hefur skrifað fluguveiðibók og ritstýrir Flugufréttum. Þar ritar Stefán Jón grjótharðan leiðara þar sem hann skefur ekki af því og talar um hrun.

Veiðivonin orðin lítil

Stefán Jón vill horfa á uppgjörstölur ekki bara út frá fjölda fiska heldur vill hann skoða hversu margir fiskar fást á stöng:

„Ég held að niðurstaðan núna, eftir þetta erfiða sumar, þá verður að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Ef maður skoðaðar laxveiðitölurnar sem núna liggja fyrir og skoðar veiðina á hverja stöng í hverri á sjáum við að yfir landið er 50 prósent aflaminnkun milli ára. Samdrátturinn er allt frá því að vera enginn í einni eða tveimur ám niður í það að vera 60 til 70 prósent minnkun á veiði milli ára. Og af því að það er nú alveg að koma 6. október minni ég á það að þegar krónan okkar féll um 50 prósent þá kölluðum við það hrun. Og þegar laxveiðin hrynur um 50 prósent þá köllum við það hrun. Það er ekkert um annað að ræða í þessu samhengi, því miður, og menn eiga bara að ræða það út frá þeim forsendum.“

Himinhátt verð veiðileyfa

Svo virðist sem veiðileyfahafar vilji mála yfir þessa staðreynd?

„Það er kominn uppgjörstími í veiðiheiminum, tel ég. Menn eiga að setjast niður, ræða og setja í samhengi bæði við það að aflavonin getur verið með ýmsu móti eins og menn þekkja yfir langan tíma. En, ef við horfum yfir síðustu tíu til fimmtán ár þá hefur verð á laxveiðileyfum hækkað langt umfram almenna verðlagsvísitölu í landinu. Er ekki kominn tími til að þeir sem selja veiðileyfin og þeir sem leigja út árnar átti sig á því að kaupgeta íslenskra veiðimanna stendur ekki í neinu samhengi við það verðlag sem þeir eru með á veiðileyfum. Og þegar aflavonin orðin svona líka þurfum við að spyrja okkur: Eru einhverjir neytendur eftir af þessari vöru á Íslandi? Og ég er hræddur um að þeim eigi eftir að fækka mjög mikið sem yrði mjög slæmt fyrir veiðimenningu á Íslandi.“

Misskilningur að tala um hrun

Stefán Jón er ekki sá eini sem hefur gagnrýnt verðlagsþróun í veiðileyfasölu harkalega og meðal þekktra veiðimanna er Bubbi Morthens sem hefur tekið í sama streng. Óðinn Sigþórsson, formaður Landssambands veiðifélaga, vill hins vegar horfa á stöðu mála úr annarri átt.

„Í fyrsta lagi held ég að það sé mikill misskilningur að tala um að það sé hrun í laxveiðinni. Það sem við erum að horfa uppá er náttúruleg sveifla. Sannarlega er það þannig að eins árs laxinn hefur skilað sér með allra lakasta móti í sumar en á móti erum við að horfa uppá að tveggja ára laxinn er að skila sér betur en undanfarin ár, miklu betur en mörg undanfarin ár. Ég var einmitt að lesa það að stærri hluti veiðinnar í Vatnsdalnum, þetta er tveggja ára lax og sömu sögu má segja um norðanvert landið. Og einni í ánum á Vesturlandi og Suðvesturlandi, þar sem við höfum séð lítið af tveggja ára laxi undanfarna áratugi, við erum að sjá að þar hefur orðið ánægjuleg breyting líka,“ segir Óðinn. Hann segir að þegar litið sé til þessara þátta sé eðlilegra að tala um breytingar eða sveiflur í náttúrunni, sem vísindamenn eigi og verði að leita svara við; hvað valdi?

Veiðileyfaverð er hátt og á að vera það

En, uppgjörstölurnar ljúga ekki en gleraugun sem Óðinn setur upp eru ekki sömu polaroid-gleraugun og Stefán Jón er með á nefinu:

„Það er hárrétt, veiddur laxafjöldi, það eru miklu færri laxar veiddir en 2013. En, það verður að líta til þess að 2013 var mjög gott ár. Raunar árin þar á undan að árinu 2012 undanskyldu. Ég held reyndar að veiðimenn sem muna dálítið aftur í tímann, eru ekki með skammtímaminni, muna eftir svona árum. Það er bara þannig. Þetta er ekkert alveg nýtt undir sólinni,“ segir Óðinn.

En, það verður ekki horft hjá því að gagnrýni á hátt veiðileyfaverð er býsna hávær?

„Ég get tekið undir það að verð á laxveiðileyfum á Íslandi er hátt. Það er einfaldlega vegna þess að í öllum samanburði þá erum við að selja leyfi í hágæðaveiði hér á Íslandi. Og við höfum aldrei dregið dul á það, hvorki veiðiréttaeigendur eða leigutakar, að markaðurinn er okkar húsbóndi. Það er markaðurinn sem ræður ferðinni. Þetta er ekkert nýtt að ef veiðin bregst vonum manna þá komi upp þessar raddir. En við verðum hins vegar ekki varir við það að menn fari fram á að við hækkum leyfin sé veiði mjög góð. Ég held að affarasælast sé að láta markaðinn um þetta.“

Hvernig hefur gengið að selja leyfi fyrir næsta sumar?

„Veiðileyfasalan heilt yfir stendur mjög vel fyrir næsta sumar. Auðvitað er þetta þannig að árnar standa misjafnlega hvað þetta varðar en ég held að heilt yfir sé staðan mjög góð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×