Innlent

Hrossin vitlaus í jólatré

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Janúar er í miklu uppáhaldi hjá hestunum Fjörva, Diljá og Glóð, því þá fá þeir jólatré til að éta og naga. Eigandi hrossanna segir greinilega eitthvað efni í trjánum sem hestarnir eru vitlausir í.

Ásta Ólafsdóttir og Sigurður Einarssonar eru með nokkur hross í hesthúsahverfinu á Selfossi en áður en þau fluttu á staðinn voru þau með búskap í Skúfslæk í Flóa. Hestarnir þrír eru alltaf spenntir að komast út í gerði því þar vita þeir af nokkrum jólatrjám sem Ásta færir þeim.

„Manni fannst þetta voðalega furðulegt fyrst en svo kom í ljós að hestarnir hafa alveg þvílíka ánægju af þessu. Þeir leika sér með þetta, þeir bera þetta á milli sín og svo naga þeir greinar af þessu. Það er greinilega eitthvað efni í þessu sem að þeir sækjast í,“ segir Ásta Ólafsdóttir.

„Þá hafa þau miklu meiri hreyfingu og þau hafa meiri félagsskap og hafa það miklu skemmtilegra,“ bætir Ásta við.

En eru þau að éta barrið líka?

„Ég veit eiginlega ekki hvað verður um það, hvort þau sækist í barrið eða hvort það eru greinarnar.“

Það styttist óðum í að Ásta verði áttræð. Hún fer mikið á hestbak og alltaf í hestaferðir á sumrin. Hesturinn hennar er Fjörvi, 17 vetra.

„Ég held að það sé nánast ekki til betri hestur en þessi. Hann passar mig og við getum bara gert allt það sem okkur dettur í hug saman. Hann er svo þægur en hann er líka svo góður við lítil börn. Barnabarnið mitt er á honum, við þurfum ekki einu sinni að líta á hana hérna inni. Við setjum hana bara á bakið á honum inni í stíu. Svona hestar eru ákafleg vandfundnir,“ segir Ásta

Hún segir að það sé gaman að stússast í hrossunum sínum hérna á Selfossi og hvað þá að komast á hestbak á góðum hesti.

„Það er gaman að fara á bak og betri félaga er ekki hægt að eiga.“

Viðtalið við Ástu og furðulegt atferli hestanna má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×