Handbolti

Hrokafullur Lazarov flúði frá íslenskum fjölmiðlum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Stórstjarna Makedóníu, Kiril Lazarov, vann sér ekki inn marga punkta hjá íslenskum fjölmiðlum í kvöld með hegðun sinni eftir tap Makedóníu gegn Spáni í kvöld.

Fyrst lofaði Lazarov RÚV viðtali á leið sinni um viðtalssvæðið en sveik það svo með því að reyna að hlaupa í gegnum viðtalssvæðið eftir að hafa talað við nokkra makedónska fjölmiðla.

Blaðamaður Vísis greip Lazarov á lokasprettinum út af svæðinu og það kom nú ekkert sérstakt bros á Makedónann er ofanritaður kynnti sig frá Íslandi. Ég byrjaði á að spyrja Lazarov út í svekkjandi tap.

„Nei, nei, nei. Við erum mjög sáttir,“ sagði Lazarov hrokafullur en Makedónarnir voru mjög ósáttir við dómara leiksins og þeir eru líka ekkert allt of sáttir að fá aðeins 19 tíma hvíld fyrir leikinn gegn Íslandi á morgun.

„Við höfum lítinn tíma til þess að jafna okkur í þessari íþrótt og nú erum við farnir að sofa. Ísland fékk meiri tíma til þess að undirbúa sig og verða ferskari en við.“

Ekki gafst kostur á frekari spurningum því Lazarov var farinn eftir þessar rúmu 20 sekúndur sem hann gaf Vísi.

Hinn litskrúðugi þjálfari Makedóníu, Lino Cervar, var þungur á brún á blaðamannafundi eftir leikinn.

„Það verður erfitt fyrir okkur að vera ferskir á morgun. Vonandi geta strákarnir samt sýnt karakter og þrautseigju gegn Íslandi. Það er nýr dagur á morgun,“ sagði Cervar en hann sagðist ekki vera til í að tala um Ísland er hann var inntur eftir því. Hann var enn að jafna sig á tapinu í kvöld.

Ekki missa af neinu sem gerist á HM í Frakklandi. Vísir er með öflugt fréttateymi á mótinu sem færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir

Geir: Allt galopið í báða enda

Geir Sveinsson landsliðsþjálfari segir að þeir sem glími við meiðsli verði til í slaginn gegn Makedóníu annað kvöld.

Arnar Freyr: Gömlu kallarnir eru líka fyndnir

Hinn ungi og sterki Arnar Freyr Arnarsson hefur minnt á sig á sínu fyrsa stórmóti og sýnt á köflum hvers hann er megnugur. Flottur strákur sem á framtíðina fyrir sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×