Innlent

Hröð fjölgun umhverfis höfuðborgarsvæðið

Sveinn Arnarsson skrifar
Fjölgun á höfuðborgarsvæðinu er aðeins helmingur á við fjölgun í nærsveitum þess.
Fjölgun á höfuðborgarsvæðinu er aðeins helmingur á við fjölgun í nærsveitum þess. Fréttablaðið/Vilhelm
Fólki fjölgar tvöfalt hraðar í kraganum utan um höfuðborgarsvæðið en á höfuðborgarsvæðinu sjálfu. Þetta sýna nýjar tölur Hagstofunnar um mannfjölda á landinu á síðasta fjórðungi ársins 2015. Mikil fjölgun er á Akranesi, á Suðurnesjum og austan Hellisheiðar.

Áframhaldandi fækkun á Vestfjörðum er staðreynd sem og að íbúum fækkar á Austurlandi.

Í lok fjórða ársfjórðungs í fyrra bjuggu 332.750 manns á Íslandi, 213.760 á höfuðborgarsvæðinu en 119.000 utan þess. Fjölgar íbúum um rúmt eitt prósent bæði á höfuðborgarsvæðinu og í landsbyggðunum. Hins vegar ef tölurnar eru skoðaðar kemur í ljós að staðan er misgóð í landsbyggðunum. Til að mynda fjölgar mjög mikið á Akranesi, á Suðurnesjum og austan Hellisheiðar. Eru þetta byggðarlög í kringum höfuðborgina sem njóta góðs af nálægð við þá þjónustu sem þar er í boði.

„Byggðarlög á Suðvesturlandi í allt að 50 km fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu vaxa tvöfalt hraðar en höfuðborgarsvæðið. Þessi þróun hefur staðið í allmörg ár og er sambærileg við þróun byggða víða annars staðar á Vesturlöndum,“ segir Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri og fyrrverandi formaður Byggðastofnunar. 

„Margir sækjast eftir því að sameina helstu kosti þéttbýlis og dreifbýlis með búsetu í meðalstórum byggðarlögum í seilingarfjarlægð frá borginni. Það er mikilvægt að rugla þessum svæðum ekki saman við borgina, þau hafa umtalsverða sérstöðu og þróast eftir eigin lögmálum.“

Annars staðar á landinu stendur mannfjöldi í stað á flestum svæðum eða eykst örlítið. Þó er marktæk fækkun íbúa á Austurlandi staðreynd sem og að íbúum á Vestfjörðum heldur áfram að fækka, nú um 1,3 prósent milli ára. 

„Það er verulegt áhyggjuefni að íbúum Vestfjarða fækkar enn milli ára. Raunar stendur mannfjöldi Ísafjarðarbæjar í stað og fólki fjölgar í Vesturbyggð, en víða annars staðar á Vestfjörðum er veruleg fólksfækkun,“ segir Þóroddur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×