Menning

Hringrás upplifunar og sköpunar

Magnús Guðmundsson skrifar
Guðný Guðmundsdóttir er listrænn stjórnandi Cycle-hátíðarinnar ásamt Tinnu Þorsteinsdóttur.
Guðný Guðmundsdóttir er listrænn stjórnandi Cycle-hátíðarinnar ásamt Tinnu Þorsteinsdóttur.
„Hugmyndin er að þetta sé hátíð sem fléttast inn í lífið og samfélagið á staðnum. Að auki langar okkur líka til þess að taka upp efni og hljóð sem er að finna á staðnum og endurnýta. Þannig að þetta er líka endurvinnslukonsept, listrænt séð,“ segir Guðný Guðmundsdóttir sem er annar listrænna stjórnenda Cycle tónlistar- og listahátíðarinnar sem fer fram í Kópavogi í ágúst.

Tinna Þorsteinsdóttir er einnig listrænn stjórnandi ásamt Guðnýju en framkvæmdastjóri er Fjóla Dögg Sverrisdóttir. En allar eru þær með listrænar rætur í klassískri tónlist.

Hringrás

Guðný segir að Cycle-hátíðin eigi sér í raun langan aðdraganda. „Árið 2008 byrjuðum við með hátíð sem heitir Tónlistarhátíð unga fólksins þar sem áherslan var á klassíska- og samtímatónlist fyrir ungt fólk. Í fyrra fengum við svo styrk frá Creative Europe í samstarfi við kollega okkar í Englandi og Noregi og þá ákváðum við að taka þetta skrefinu lengra. Maður breytist líka á þessum tíma. Ég hef verið búsett í Berlín nokkuð lengi og áhugasviðið hefur færst í auknum mæli á nýsköpun í listum.

Áherslan á hátíðinni í dag er meira á samspil tónlistar og myndlistar en tónleikar eru ekki aðeins það sem maður heyrir heldur líka það sem maður sér og upplifir. Allt er þetta hluti af einhverjum allsherjar performans eða gjörningi. Þetta er sameiginleg upplifun þeirra sem eru að perfomera og áhorfenda og það er spennandi að skoða það samband – þá hringrás.

Ný hugsun – nýr vettvangur

Þessi áhugi, eða öllu heldur sköpun, hefur verið lengi til staðar. Myndlistarmenn hafa verið að stíga yfir línuna og gera tónlist og öfugt. Þessi þróun hefst snemma á tuttugustu öld með Marcel Duchamp, John Cage og heldur áfram með Fluxus-hreyfingunni en síðan gerist frekar lítið. Þetta er langur aðdragandi en tónlistin hefur samt ekki beinlínis slitið sig eins mikið frá hefðinni og myndlistin og önnur listform af einhverjum sökum. Í raun erum við því að athuga hvort það sé hægt að beina þessu inn á eitthvert nýtt svið.

Við erum með tónlistina eins og við þekkjum hana í dag og síðan erum við með myndlistina en þetta er kannski eitthvað nýtt. Íslendingar sérstaklega, með sína miklu tónlistarhefð, hafa verið að fara inn á þetta svið í auknum mæli, eins og t.d. Ragnar Kjartansson, Ólafur Ólafsson og Libia Castro og fleiri. Þetta er að koma upp víðar og þar á meðal hér í Þýskalandi þar sem frægir myndlistarmenn eins og Olaf Nicolai og Tino Seghal eru að nota tónlistina sem sinn miðil. Hátíðin sprettur þannig upp úr þessari þróun og verður að veruleika fyrir tilstilli þess að við fáum þennan styrk og ákveðum að reyna að búa til þennan nýja vettvang.“

Spennandi jafnræði

Guðný segir að þær séu með hátíðinni að kanna sviðið.

„Þetta snýst um hvernig þessi samvinna verður til. Þetta er rannsókn á því hver er munurinn á listinni sem tónlistarmaður gerir þegar hún er kölluð myndlist eða þegar myndlistarmaður gerir tónlist. Það skiptir okkur máli að öll list á rétt á sér en verkin myndast þó með ólíkum hætti. 

Við erum með listviðburði á hátíðinni sem tengjast báðum þessum sköpunarleiðum á milli greina. Við erum líka með hreint samvinnuverkefni þar sem ríkir jafnvægi í öllu sköpunarferlinu allt frá upphafi á milli listamannanna Sigurðar Guðjónssonar myndlistarmanns og Þráins Hjálmarssonar tónskálds. Það er alfarið sjálfsprottið verk sem ekki einu sinni sýningarstjórinn hafði áhrif á að varð til. Það verður spennandi að sjá og heyra hvað kemur út úr slíku jafnræði.“

Minning og viðtökur

Eitt af því sem er athyglisvert við Cycle er að hún fer fram á óvenjulegum stöðum innan Kópavogs.

„Rýmið breytir því hvernig áhorfandinn meðtekur. Tónleikasalur mótar til að mynda ákveðna hegðun, býr yfir ákveðnum minningum og hefur áhrif á upplifun. Okkur langar til þess að láta á það reyna að leika okkur að þessu. Svo viljum við líka gefa stöðum eins og Hamraborginni, Kópavogshæli og fleiri stöðum nýja minningu með því að færa þangað fólki nýjar upplifanir. Við viljum líka vera í almennum rýmum til þess að fólk verði hálfpartinn fyrir listinni – að hún skelli bara á því fyrirvaralaust.“

Guðný segir að hátíðin sé í raun fjórskipt og að fyrsta skrefið sé vinnustofa og námskeið sem myndi vettvang fyrir samræðu listamannanna.

„Annað er svo lifandi dagskrá í hefðbundnum og óhefðbundnum rýmum og í almenningsrýminu – gjörningar, tónlistarperformansar, göngur, óperan Björninn sem á sér stað inni á Players í Kópavogi. Í fjórða lagi er það gríðarlega spennandi sýning í Gerðarsafni og þar verður sýningarstjóri Nadim Samman sem hefur unnið víða með heimsþekktum listamönnum og loks er það Listabíó í Salnum þar sem sýnd verða samvinnuverkefni tónlistar- og myndlistarmanna. Það verður því af nógu að taka fyrir listunnendur sem vonandi munu fjölmenna á Cycle í ágúst.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×