Innlent

Hringrás opið fyrir að flytja

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Svona var umhverfis á athafnasvæði Hringrásar eftir bruna 2011.
Svona var umhverfis á athafnasvæði Hringrásar eftir bruna 2011. Vísir/Vilhelm
Forsvarsmenn fyrirtækisins Hringrásar segjast vera opnir fyrir því að flytja starfsemi fyrirtækisins á hentugra svæði. Grunur leikur á um kveikt hafi verið í á athafnasvæði Hringrásar við Klettagarða í Reykjavík á þriðjudagskvöld. Fyrirtækið ætlar að kæra íkveikjuna.

Þá segist fyrirtækið hafa aukið öryggisgæslu á svæðinu og verður eftirlitsmyndavélum fjölgað. Starfsemi fyrirtækisins var stöðvuð eftir að í ljós kom að fyrirtækið braut gegn starfsleyfi með því að geyma of mikið af efni á vinnusvæði sínu.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að vegna tafa á útskipun og uppfærslu á dekkjatætara hafi of mikið efni safnast saman á svæði fyrirtækisins. Vinnur fyrirtækið nú að því að uppfylla skilyrði starfsleyfisins og segja forsvarsmenn þess að því verði lokið fyrir lok dags í dag.

Þá segir fyrirtækið að það hafi óskað eftir fundi með Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins þar sem óskað er eftir nánara samstarfi um forvarnir og brunavarnir.

Að minnsta kosti þrír brunar hafa orðið frá árinu 2004 á athafnasvæði Hringrásar. Íbúar á Laugarnesinu eru margir hverjir ósáttir við að starfsemi Hringrásar sé enn til staðar við Klettagarða.

Segir fyrirtækið að það sýni þessum áhyggjum skilning og að það sé opið fyrir flutningi á hentugra svæði. Vonast fyrirtækið eftir góðu samstarfi við borgaryfirvöld og Faxaflóahafnir við að finna hentugri staðsetningu á höfuðborgarsvæðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×