Erlent

Hringferð Solar Impulse lokið

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Vélinni var lent í Abu Dhabi í nótt.
Vélinni var lent í Abu Dhabi í nótt. vísir/epa
Hringferð sólarknúnu flugvélarinnar Solar Impulse 2 um hnöttinn lauk í nótt þegar hún lenti í Abu Dhabi í sameinuðu arabísku furstadæmunum. Það er í fyrsta sinn sem vél, knúinni sólarorku, er flogið hringinn í kringum hnöttinn.

Ferðin hófst í Abu Dhabi hinn 9. mars síðastliðinn. Flogið var yfir fjórar heimsálfur, þrjú höf og tvö úthöf; samtals fjörutíu og tvö þúsund kílómetra.

Flugmennirnir Bertrand Piccard og Andre Borscberg frá Sviss skiptust á að flúga vélinni. Sá síðarnefndi flaug lengsta legginn, tæpa níu þúsund kílómetra og var þá í loftinu í tæplega 118 klukkustundir. Þar með sló Borschberg heimsmet með því að fljúga lengsta samfleytta sólóflug sögunnar, en alls voru nítján met slegin í ferðinni.

Flugmennirnir tveir hafa unnið að Solar Impulse verkefninu í rúman áratug en tilgangur leiðangursins var að sýna fram á möguleika sólarorku í flugi, og er þetta í fyrsta sinn sem flugvél er flogið kringum hnöttinn án þess að nota eldsneyti. Verkefnið hafðist þó ekki í fyrstu tilraun, en þeir reyndu fyrst við það fyrir tíu mánuðum.

Meðalhraði vélarinnar er um sjötíu kílómetrar á klukkustund. Vélin er álíka þung og bíll en vænghaf hennar er sambærilegt og á Boeing 747.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×