Erlent

Hrikalegt ástand á Gazaströndinni

Atli Ísleifsson skrifar
120 Palestínumenn hafa látist í árásum Ísraelshers frá því á þriðjudaginn.
120 Palestínumenn hafa látist í árásum Ísraelshers frá því á þriðjudaginn. Vísir/AP
Sextán Palestínumenn hið minnsta féllu í loftárásum Ísraelshers í dag og í nótt og hafa nú utanríkisráðherrar arabaríkja ákveðið að boða til fundar vegna deilunnar milli Ísraelsstjórnar og Hamas á Gazaströndinni.

Loftárásir næturinnar beindust að fjölda staða á Gaza og létust meðal annars tveir þegar sprengjur féllu á endurhæfingarstöð í Beit Lahiya í norðurhluta landsins. 120 Palestínumenn hafa látist í árásum Ísraelshers frá því á þriðjudaginn.

Stjórnvöld í Kúveit hafa farið fram á að Arababandalagið komi til fundar vegna málsins og er áætlað að fundurinn fari fram á mánudag. Arabaríkjunum hefur ekki tekist að koma sér saman um sameiginlega afstöðu vegna málsins. Egyptaland hefur alla jafna gegnt mikilvægu hlutverki í þessari langvinnu deilu, en virðist hafa hægar um sig nú en oft áður.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, útilokar ekki innrás og landhernað á Gaza en harðlínumenn í ríkisstjórn hafa þrýst mjög á landhernað. Leiðtogar Vesturlanda hafa hins vegar þrýst á Ísraelsmenn og Hamasliða að láta af hernaði sínum og setjast að samningaborði en þær áskoranir hafa engin áhrif haft til þessa.

Ísraelsmenn hafa gert loftárásir á um eitt þusund skotmörk á Gaza það sem af er og segir Netanyahu að árásum verði ekki hætt fyrir en ró kemst á, eða þar til Hamasliðar láta af loftskeytaárásum sínum. Herskáir Palestínumenn hafa sömuleiðis haldið eldflaugaárásum sínum á Ísrael áfram, en enginn hefur fallið í þeim til þessa en nokkrir særst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×