Lífið

Hressir hjálmar

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Hjálmarnir eru tólf talsins og skreyttu teiknararnir þá eftir ólíkum þemum. Ágóði af sölunni rennur til Barnaheilla.
Hjálmarnir eru tólf talsins og skreyttu teiknararnir þá eftir ólíkum þemum. Ágóði af sölunni rennur til Barnaheilla. Vísir/Hanna
Í dag fer fram myndlistarsýning og uppboð á reiðhjólahjálmum í Reiðhjólaversluninni Berlin.

Hjálmarnir eru myndskreyttir af teiknurunum Erlu Maríu Árnadóttur, Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur, Lindu Ólafsdóttur og Lóu Hjálmtýsdóttur og eru hjálmarnir tólf talsins og koma frá Melon Helmets. Slippfélagið gaf málninguna sem notuð var til skreytinganna.

„Við erum allar búnar að vera vinkonur í dálítið langan tíma, svona teiknaravinkonur. Við tókum þrjá hjálma á mann og teiknuðum á þá, hver með sínu lagi,“ segir Lóa en hjálmarnir hennar eru með vatns- lofts- og jarðarþema.

„Ég var með hafmeyjur, regnboga, fugla og einn fjallakóng. Erla var með skordýraþema, Linda með fugla og Halla með sama þema og ég.“

Hjálmarnir eru litríkir og skemmtilegir.
Hjálmarnir eru glæsilegir og um mjög nytsamlega listgripi að ræða en þeir verða, líkt og áður segir, boðnir upp á morgun. Allur ágóði rennur til Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.

Samtökin standa árlega fyrir átakinu Hjólasöfnun. Þá er leitað til almennings eftir gömlum barnareiðhjólum sem gerð eru upp og gefin börnum sem koma úr efnaminni fjölskyldum.

Viðburðurinn fer fram í Reiðhjólaversluninni Berlin sem er til húsa á Geirsgötu 5a og hefst klukkan 15.00. Allir velkomnir. 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×