Innlent

Hrekkti eiganda pallbíls sem lagði í fjögur stæði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Myndirnar sem Guðrún Magnea birti á Facebook á föstudaginn.
Myndirnar sem Guðrún Magnea birti á Facebook á föstudaginn. Myndir/Birgir Már Sigurðsson
„Vonandi ertu ekki jafn lélegur í rúminu og þú ert að leggja í stæði,“ voru skilaboðin sem biðu eiganda pallbíls á bílastæðinu fyrir aftan Landakotsspítala á föstudaginn. Hrekkjalómurinn á bak við skilaboði var Guðrún Magnea Guðnadóttir.

„Ég legg þetta ekki í vana minn. Þetta er í fyrsta skipti sem ég set svona skilaboð á bíl,“ segir Guðrún Magnea í samtali við Vísi. Hún segir oft hafa verið rætt í vinahópnum hversu illa fólk leggi stundum bílum sínum. Vinkona hennar hafi í eitt skipti skilið eftir sömu skilaboð á bíl sem hafði verið lagt illa.

„Mér fannst það svo fyndið að ég notaði það segir Guðrún Magnea.“

Guðrún tók mynd af umræddum bíl og skilaboðunum líkt og sjá má hér að ofan.

„Stundum leggur fólk aðeins upp á kant eða í tvö stæði. En þessi tók fjögur stæði,“ segir Guðrún Magnea. Í rauninni hafi aðeins vantað að eitt stæðanna væri ætlað fötluðum. Þær sáu svo þegar eigandi bílsins sneri aftur.

„Hann var ekki ánægður,“ segir Guðrún Magnea og vonar að skilaboðin verði til þess að viðkomandi ökumaður vandi betur til verka næst þegar hann leggur bíl sínum.

Margir hafa deilt mynd Guðrúnar á Facebook og hlæja flestir að uppátæki hennar. Þó eru einhverjir sem gagnrýna það og benda á kaldhæðnina sem felst í því að Guðrún Magnea þekkir vel til þegar kemur að pallbílum.

„Pick-up er staðalbúnaður á mínu heimili,“ segir Guðrún Magnea hlæjandi. „Ég er mikið í þessu umhverfi og þekki marga sem eiga svona bíla.“ Hún þekkir því vel hve erfitt getur verið að leggja svo stórum bílum.

„Við höfum upplifað alls konar skemmtilegar uppákomur í sambandi við það. Þetta er samt einstakt,“ segir Guðrún Magnea. Hún vonar að ökumaðurinn taki hrekknum ekki mjög alvarlega. Þá á hún ekki von á því að fara að hrekkja fleiri ökumenn með skilaboðum.

„Þetta var bara einhver föstudagshúmor í okkur stelpunum. Það var ekki hægt að sleppa því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×