Innlent

Hreindýrakvóti hækkar lítillega

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Kálfar og veturgamlir tarfar eru alfriðaðir.
Kálfar og veturgamlir tarfar eru alfriðaðir. vísir/vilhelm
Hreindýrakvóti ársins 2017 eykst lítillega frá fyrra ári. Alls verður heimilt að veiða 1.315 dýr en í fyrra var kvótinn 1.300 dýr.

Heimilt verður að veiða 922 kýr og 393 tarfa samanborið við 848 kýr og 452 tarfa í fyrra. Veiðitímabilið er 1. ágúst til 15. september fyrir tarfa en fimm dögum lengur fyrir kýr. Kálfar og veturgamlir tarfar eru alfriðaðir.

Undanfarin ár hefur kvótinn verið á bilinu 1.220-1.315 dýr að árinu 2015 undanskildu. Þá mátti veiða 1.412 dýr en það var aukning um 135 dýr frá fyrra ári.

Heimildirnar eru veittar með fyrirvara um að ekki verði verulegar breytingar á stofnstærð fram að veiðum sem kalli á endurskoðun veiðiheimilda. Umhverfisstofnun auglýsir og sér um sölu allra veiðiheimildanna. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×