Sport

Hrafnhildur í 6. sæti í úrslitasundinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hrafnhildur hefur staðið sig frábærlega á HM.
Hrafnhildur hefur staðið sig frábærlega á HM. vísir/vilhelm
Hrafnhildur Lúthersdóttir lenti nú rétt í þessu í 6. sæti af átta keppendum í 100 metra bringusundi á heimsmeistaramótinu í Kazan í Rússlandi.

Hrafnhildur synti á 1:07,10 mínútum og bætti sig um eitt sekúndubrot frá undanúrslitunum í gær.

Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk sundkona er á meðal keppenda í úrslitum á HM í 50 metra laug.

Hin rússneska Yuliya Efimova bar sigur úr býtum í úrslitasundinu en hún kom í bakkann á 1:05,66 mínútum. Hin 18 ára gamla Ruta Meilutyte frá Litháen varð önnur á 1:06,36 mínútum og Alia Atkinson frá Jamaíku þriðja á 1:06,42 mínútum.

Sjá einnig: Þetta kom mikið á óvart

Hrafnhildur stóð sig frábærlega í gær, fyrst í undanrásunum og svo í undanúrslitunum.

Hún sló eigið Íslandsmet í undanrásunum þegar hún synti á 1:06,87 mínútum og í leiðinni náði hún A-lágmarki fyrir Ólympíuleikana í Ríó á næsta ári.

Í undanúrslitunum synti Hrafnhildur á 1:07,11 mínútum og sá tími dugði henni til að komast í úrslit.

Hún fór með áttunda besta tímann inn í úrslitin en aðeins átta sekúndubrotum á undan hinni áströlsku Taylor McKeown sem var með níunda besta tímann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×