Handbolti

Hrafnhildur Hanna búin að ná öllum nema Ramune

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir. Vísir/Stefán
Selfyssingurinn Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði tólf mörk í jafntefli Selfoss og ÍBV í Vestmannaeyjum í gær og hefur þar með skorað 217 deildarmörk á tímabilinu.

Hrafnhildur Hanna hafði farið yfir tvö marka múrinn í leiknum á undan en hoppaði nú upp um fimm sæti og alla leið upp í annað sæti yfir þær sem hafa skorað flest mörk á einu tímabili undanfarna tvo áratugi.

Hrafnhildur Hanna komst upp fyrir þær Hönnu Guðrúnu Stefánsdóttur (3 tímabili) og Pövlu Plaminkovu (1 tímabili) með því að skora þessi tólf mörk í Eyjum í gær.

Hrafnhildur Hanna hefur náð öllum nema Ramune Pekarskyte sem skoraði 253 mörk í 25 leikjum tímabilið 2003 til 2004. Ramune var að skora yfir tíu mörk að meðaltali í leik það tímabil.

Hrafnhildur Hanna hefur skorað þessi 217 mörk í 23 leikjum sem þýðir að hún hefur skorað 9,4 mörk að meðaltali í leik sem magnað framlag hjá þessari 21 árs gömlu stelpu.

Hrafnhildur Hanna varð markadrottning Olís-deildarinnar í fyrra en þá var hún með 159 mörk í 22 leikjum eða 7,2 mörk í leik. Hún hefur því hækkað meðalskor sitt um tvö mörk í leik.

Það eru ekki miklar líkur á því að Hrafnhildur Hanna nái markameti Ramune Pekarskyte en til þess þyrfti hún að skora 36 mörk í síðustu þremur leikjum Selfossliðsins sem eru á móti Stjörnunni (heima), HK (úti) og FH (heima).

Hrafnhildur Hanna skoraði samtals 27 mörk í fyrri leikjum Selfoss á móti þessum þremur liðum.

Hrafnhildur Hanna þarf að skora tólf mörk að meðaltali í leik til að ná meti Ramune sem ætti því að lifa af enn eitt tímabili.

Ramune var erlendur leikmaður þegar hún setti metið sitt á sínum tíma og því hefur engin íslensk kona skorað fleiri mörk á einu tímabili en Hrafnhildur Hanna á þessari leiktíð.

Flest mörk á einu tímabili í efstu deild kvenna 1995-2016:

(Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu HSÍ)



Ramune Pekarskyte, Haukum 2003-04 - 253 mörk

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Selfossi 2015-16 - 217 mörk

Hanna Guðrún Stefánsdóttir, Haukum 2009-10 - 215 mörk

Hanna Guðrún Stefánsdóttir, Haukum 2008-09 - 212 mörk

Hanna Guðrún Stefánsdóttir, Haukum 2002-03 - 210 mörk

Pavla Plaminkova, ÍBV 2006-07 - 206 mörk

Ragnhildur Rósa Guðmundsdóttir, FH 2009-10 - 190 mörk

Anna Yakova, ÍBV 2003-04 - 185 mörk

Vera Lopes, ÍBV 2013-14 - 185 mörk

Halla María Helgadóttir, Víkingur 1997-98 - 183 mörk




Fleiri fréttir

Sjá meira


×