Sport

Hrafnhildur bætti met Eyglóar | Níu íslensk verðlaun í sundinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hrafnhildur Lúthersdóttir.
Hrafnhildur Lúthersdóttir. Vísir/Andri Marinó
Hrafnhildur Lúthersdóttir og Eygló Ósk Gústafsdóttir unnu bæði gullverðlaun á fyrsta keppnisdegi í sundi á Smáþjóðaleikunum í Reykjavík.

Hrafnhildur Lúthersdóttir vann gull í 200 m fjórsundi með miklum yfirburðum en hún kom í mark á 2:13,83 mínútum. Hún bætti um leið Íslandsmet Eyglóar Óskar Gústafsdóttur í greininni um rúma mínútu.

Hrafnhildur stórbætti einnig mótsmetið sem hún átti reyndar sjálf frá leikunum fyrir tveimur árum síðan, er hún synti á 2:17,27 mínútum.

Jóhanna Gerða Gústafsdóttir, systir Eyglóar, varð önnur á 2:18,14 mínútum.

Eygló Ósk vann gull í sinni sterkustu grein, 200 m baksundi, fyrr í dag er hún synti á nýju mótsmeti, 2:12,52 mínútum. Hún var nokkuð frá Íslandsmeti sínu sem er 2:09,36 mínútur. Jóhanna Gerða varð önnur í þeirri grein á 1:06,88 mínútum.

Anton Sveinn McKee bætti svo Íslandsmet í 200 m fjórsundi er hann kom annar í mark í greininni á 2:04,53 mínútum.

Bryndís Rún Hansen vann svo silfur í 100 m skriðsundi er hún kom í mark á 56,12 sekúndum. Julie Meynen frá Lúxemborg vann greinina á 55,66 sekúndum.

Þrír Íslendingar unnu svo til bronsverðlauna í dag. Kristinn Þórarinsson í 200 m baksundi á 2:08,92 mínútum, Inga Elín Cryer í 200 m flugsundi er hún synti á 2:19,39 mínútum og Ingibjörg Kristín Jónsdóttir í 100 m skriðsundi en hún synti á 58,13 sekúndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×