Handbolti

Hrafnhildur: Við eigum möguleika gegn meisturunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úrslitakeppnin í Olísdeild kvenna hefst í kvöld með fjórum fyrstu leikjunum í 8-liða úrslitunum.

Markahrókurinn Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var í gær valin í úrvalslið deildarinnar en þrátt fyrir að Selfoss mæti Íslandsmeisturum Gróttu í fyrstu umferð úrslitakeppninnar ætlar hún liði sínu langt.

„Ég tel að við eigum fullan möguleika í rimmunni. Þetta verður auðvitað mjög erfitt enda eru þær ríkjandi Íslandsmeistarar,“ sagði Hrafnhildur Hanna en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Fyrirfram eiga þær kannski að vinna okkur en við eigum fullan möguleika.“

Selfyssingar höfnuðu í sjöunda sæti Olísdeildarinnar en efstu sex liðin hafa verið í mjög þéttum pakka þar fyrir ofan. Selfoss endaði tíu stigum á eftir ÍBV sem hafnaði í sjötta sætinu.

„Ég tel að við séum mjög nálægt þessum topppakka í deildinni og ef okkur tekst að spila okkar besta leik þá eigum við góðan möguleika.“

„Það væri algjör draumur að koma þeim á óvart og vinna fyrsta leikinn á Seltjarnanesi og klára þær svo á heimavelli. En við byrjum bara á leiknum á morgun, gerum okkar besta og sjáum hvað það skilar okkur.“

„Deildin hefur verið jöfn og skemmtileg í vetur og allir geta unnið alla. Ég held að úrslitakeppnin verði eftir því og erfitt að segja til um hver muni vinna. En við gerum að sjálfsögðu tilkall til titilsins.“

Hrafnhildur Hanna varð langmarkahæsti leikmaður Olísdeildar kvenna í vetur með 247 mörk. Sú næsta á eftir var Díana Kristín Sigmarsdóttir með 202 mörk.

„Ég hef skorað eitthvað og margt sem hefur gengið vel í vetur. En það er líka margt sem ég hefði getað gert betur,“ sagði hún hógvær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×