Körfubolti

Hrafn: Þá er ekki mikið eftir af tilþrifunum og ástinni

Elvar Geir Magnússon í Ásgarði skrifar
Hrafn Kristjánsson messar yfir sínum mönnum.
Hrafn Kristjánsson messar yfir sínum mönnum. vísir/þórdís
„KR-ingar komu inn eins og við ætluðumst til að þeir gerðu. Þeir tóku vel á því og sýndu mikinn karakter. Þeir eiga hrós skilið fyrir leikinn. Ég vil meina að við höfum í rauninni gert það líka í rauninni," sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar eftir tapið gegn KR í Dominos-deildinni í kvöld.

„Ég vil meina að við höfum lent í hvirfilbyl í þriðja leikhluta. Þá gerast hlutir sem gerast ekki oft. Þá komu stolnir boltar og ásetningsvilla og fjórða villa á nánast sömu sekúndunni á Dag Kár sem var búinn að vera að öllum ólöstuðum besti maður vallarins fram að því."

Þessi atburðarás setti áætlanir Stjörnunnar algjörlega úr skorðum og KR-ingar komust á bragðið. Hrafn var ekki sammála dómurunum.

„Ungur drengur sem er að reyna að vinna upp fyrir mistök pinnar boltann á spjaldið og kemur aðeins við líkama andstæðingsins með skrokknum á sér. Ef það er orðin óíþróttamannsleg villa í dag þá er ekki mikið eftir af tilþrifunum og ástinni sem maður á að bera fyrir þessum leik."

„Ég þarf að skoða það aftur hvort hann hafi ekki bara í fjórðu villunni potað löngutöng í boltann. Að vera á 20 sekúndum kominn með fjórar villur á besta leikmann vallarins það breytir óneitanlega plönunum. Ég ætla ekki að tuða yfir villunum á móti Craion, stóru mennirnir voru með villurnar af ástæðu, hann er erfiður."

Um framhaldið segir Hrafn að liðið þurfi tvo sigra til að eiga einhverja möguleika á heimaleikjaréttinum.

„Þá er bara málið að ná í þá leiki. Við erum pínu fáliðaðir og höfum allavega misst Jón (Orra Kristjánsson) út tímabilið og svo þarf að sjá til með Tómas (Hilmarsson). Þetta getur orðið erfitt en það sagði enginn að þetta yrði auðvelt," segir Hrafn.


Tengdar fréttir

Pavel nær úrslitakeppninni | Rifan í lærinu fundin

Pavel Ermolinskij mun ekki vera með KR-liðinu í þremur síðustu leikjum liðsins í Dominos-deildinni samkvæmt frétt á heimasíðu KR en þar kemur einnig fram að að hann ætti að geta spilað með KR-liðinu í úrslitakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×