Innlent

Hráefni til steraframleiðslu flutt inn í meira mæli

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Verulegar breytingar hafa orðið á innflutningi á sterum hingað lands á síðustu misserum. Hráefnin eru nú flutt í miklu magni til landsins sem gefur til kynna að sjálf framleiðsla stera fari nú fram hér á landi en ekki utan landsteinanna. Fangelsisdómar eru sjaldgæfir í þessum efnum enda heyra sterar undir lyfjalög.

Tölurnar tala sínu máli. Árið tvö þúsund og tíu lögðu tollverðir hald á þrjátíu og níu þúsund steratöflur og einn komma þrjá lítra af steradufti, hráefninu sjálfu.

Það sem af er þessu ári hafa tollverðir aðeins lagt hald á hundrað og sextíu steratöflur en á sama tíma fjóra komma fjóra lítra af steradufti.

Nýlegt dæmi er stór sending sem barst frá Hong Kong, eins og margar sterasendingar reyndar. Horfinn er sá veruleiki að tollverðir leggi hald á sjálfa vöruna, eða steratöflurnar. Í þessari sendingu var aðeins um duft að ræða, þrjú kíló nánar tiltekið, og mikið magn staðdeyfilyfja.

„Við höfum séð mikla breytingu í þessu,“ segir Gunnar Sæmundsson aðstoðaryfirtollvörður. „Maður skyldi ætla að framleiðslan, pakkningin fyrir markaðinn, hafi flust hingað heim. Úr því að menn séu kannski að fá þetta frá einhverjum heilbrigðum fyrirtækjum erlendis í það að það sé verið að pakka þessu inn hérna undir einhvers konar kringumstæðum í neytendapakkningar.“

Fangelsisdómar í steramálum heyra til undantekninga. Fjársektir eru þó algengar. Nágrannaríki okkar hafa mörg fært stera, innflutning þeirra og notkun, úr lyfjalögum yfir í hegningarlög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×