Erlent

Hræðilegt fyrsta stefnumót: Rændi hundi og flatskjá

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér er mynd af Joel og Violet.
Hér er mynd af Joel og Violet.
Fyrsta stefnumót pars frá New Jersey í Bandaríkjunum endaði hræðilega. Maðurinn rændi hundi konunnar og stal rándýrum flatskjá í leiðinni. Þau kynntust á netinu og fóru á sitt fyrsta stefnumót á fimmtudaginn.

Þegar konan áttaði sig á þjófnaðinum hafði hún strax samband við lögreglu.

Konan þekkti manninn ekkert  áður en þau hittust. Hún vissi ekki fullt nafn hans – þekkti hann aðeins undir nafninu Joel. Hundurinn sem hann rændi var af Yorkshire-Terrier ætt og er metinn á um hálfa milljón króna. Flatskjárinn kostaði, að sögn konunnar, um 400 þúsund krónur.

Eftir að yfirlýsingu lögreglunnar á föstudaginn ákvað maðurinn að skila þýfinu; Skildi það eftir fyrir utan hús konunnar.

Brá sér frá

Joel heimsótti konuna á fimmtudaginn, eftir að þau kynntust á stefnumótasíðu á netinu. Konan brá sér í annað herbergi í húsinu og nýtti Joel sér þá tækifærið og hélt á brott með verðmæta flatskjáinn og hundinn, sem heitir Violet.

Strax á föstudaginn gaf lögreglan í New Jersey út yfirlýsingu. Í henni kom fram að maðurinn hafi hringt úr farsíma konunnar og að líkur væru á að hægt væri að ná fingraförum hans af símanum.

Svo virðist sem maðurinn hafi orðið hræddur við þessa yfirlýsingu og skilaði hundinum og skjánum á laugardaginn. Lögreglumenn hafa nú komist að því hvar maðurinn býr og er nú farið yfir gögn málsins og hvort það þyki ástæða að leggja fram kæru í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×