Innlent

Hraðakstur við grunnskóla: 200 óku of hratt

Birta Svavarsdóttir skrifar
Lögreglan minnir ökumenn á að aka hægar og sýna meiri tillitssemi.
Lögreglan minnir ökumenn á að aka hægar og sýna meiri tillitssemi. Vísir/pjetur
Hátt í 200 ökumenn hafa verið staðnir að hraðakstri við grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu undanfarna daga. Fjöldi kvartana hefur borist frá áhyggjufullum foreldrum til lögreglunnar vegna þessa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu nú í dag.

Lögreglan sinnir þessa dagana umferðareftirliti við grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu og óhætt er að segja að ástandið sé ekki nógu gott. Hraðamælingar í vikunni sýna að hraðakstur við grunnskóla höfuðborgarsvæðisins er algengur. Lögreglan telur því fulla ástæðu til að minna ökumenn á að aka hægar og sýna meiri tillitssemi.

Við hraðamælingar á Neshaga í Vesturbænum í nágrenni Melaskóla í dag ók rúmlega fimmtungur ökumanna yfir leyfðum hámarkshraða. Ástandið í Rofabæ við Árbæjarskóla var enn verra, en þar ók tæplega þriðjungur ökumanna of hratt. Sama brotahlutfall var í nágrenni Ölduselsskóla í Hafnarfirði í fyrradag, og í gær ók hátt í fimmtungur ökumanna of hratt fram hjá Klébergsskóla á Kjalarnesi. Loks ber að nefna að helmingur ökumanna, eða 50%, ók of hratt þegar lögreglan var við hraðamælingar í námunda við Hólabrekkuskóla og Fellaskóla í Breiðholti á mánudag.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill minna ökumenn á að aka varlega, ekki síst í námunda við skóla, enda margir þar á ferli, meðal annars nýir vegfarendur sem eru að hefja skólagöngu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×