Viðskipti innlent

HR með Hnakkaþon

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Rektor segir að verkefnin sem lögð eru fyrir nemendur í keppninni séu mjög raunhæf.
Rektor segir að verkefnin sem lögð eru fyrir nemendur í keppninni séu mjög raunhæf. fréttablaðið/ernir
Háskólinn í Reykjavík og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi standa saman að keppni sem þeir hafa ákveðið að kalla Hnakkaþon og fer fram um helgina.

„Hugmyndin sprettur upp úr svipuðum keppnum sem oft eru haldnar í upplýsingatækni og öðrum greinum. Þar er þetta kallað Hakkaþon, þar sem hópar nemenda vinna að því að leysa mjög krefjandi viðfangsefni sem eru raunveruleg viðfangsefni í samfélaginu og atvinnulífinu. Þetta er sama hugmyndin nema þarna erum við að taka fyrir viðfangsefni sjávarútvegsins,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, í samtali við Fréttablaðið.

ARi Kristinn Jónsson
Keppnin felst í því að hópar nemenda vinna þverfaglega að því að koma að öllum þáttum sem þarf til að selja ferskt sjávarfang frá Íslandi til austurstrandar Bandaríkjanna. Ari Kristinn segir að það þurfi að horfa til markaðssetningar og sölu og allra þátta í viðskiptunum. Einnig þurfi að horfa til aðferða og tækni við hvernig afurðin er meðhöndluð, pökkuð, kæld og fleira. Þá þurfi líka að hugsa til þess hvernig varan sé flutt.

„Markmiðið er annars vegar að fá nýjar hugmyndir upp á yfirborðið og hitt er síðan að vekja athygli nemenda á hver viðfangsefnin í sjávarútvegi eru,“ segir Ari Kristinn. Þá snúist ferlið um tækni, viðskipti og flutninga.

Nemendur á öllum brautum HR taka þátt í keppninni. „Við höfum gert það alveg skýrt að hóparnir munu þurfa á þverfaglegri þekkingu að halda. Þeir munu þurfa að þekkja viðskipta-, markaðs- og virðisútreikninga. Þeir munu þurfa lagaþekkingu og síðan tæknihlutann, kælitækni, flutningana og fleira,“ segir Ari Kristinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×