Körfubolti

Höttur komst aftur upp í Domino´s deildina í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mirko Stefán Virijevic fagnar úrvalsdeildarsætinu í kvöld.
Mirko Stefán Virijevic fagnar úrvalsdeildarsætinu í kvöld. Vísir/Hanna
Höttur frá Egilsstöðum tryggði sér í kvöld sæti í Domino´s deild karla á næsta tímabili eftir 32 stiga sigur á Ármanni, 99-67, í íþróttahúsi Kennaraháskólans.

Höttur á tvo leiki eftir en ekkert lið getur nú lengur náð þeim að stigum. Efsta liðið í 1. deild karla fer beint upp en liðin í 2. til 5. sæti spila um hitt sætið í úrslitakeppni.  Höttur stoppaði því bara eitt tímabil í 1. deildinni.

Hattarmenn hafa unnið 20 af 22 leikjum sínum í 1. deildinni í vetur en liðið hefur aðeins tapað einum heimaleik og einum útileik á öllu tímabilinu.

Ragnar Gerald Albertsson var stigahæstur hjá Hetti með 24 stig og Aaron Moss var með 15 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar. Mirko Stefán Virijevic var með 13 stig.

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, er því búinn að koma liðinu upp í úrvalsdeildina í annað sinn á þremur árum. Hann spilaði með liðinu í vetur og var með 13 stig í sigrinum í kvöld

Höttur komst einnig upp vorið 2015 en féll aftur úr Domino´s deildinni fyrir ári síðan.

Þetta verður þriðja tímabil Hattar í úrvalsdeild karla en liðið lék einnig í efstu deild veturinn 2005-06.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×