Innlent

Hótaði fyrrverandi eiginkonu með sms

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi mann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi nýverið fyrir að hafa sent fyrrverandi eiginkonu sinni sms þar sem hann hótaði henni. Morguninn 2. júlí sendi hann þrjú skilaboð: Ég sker andlitið þitt. - Ég skal ganga frá þér. - Ef ég hitti þig einhversstaðar þá ber ég þig til óbóta.

Maðurinn játaði brotið en krafðist vægustu refsingar. Hann sagðist hafa sent skilaboðin í reiðiskasti og að hann hafi aldrei ætlað að skaða fyrrverandi eiginkonu sína. Hann sagði ástæðu þess hve reiður hann hafi verið vera þá að konan hefði notað hann fjárhagslega og skuldaði honum peninga. Þeir peningar væru tapaðir.

Þá vildi hann að fram kæmi að hann væri búinn að stofna nýja fjölskyldu og ætti eins og hálfs árs dóttur. Allt gengi vel í því sambandi.

Í dóminum segir að maðurinn hafi verið með hreint sakarvottorð og við ákörðun refsingar verði að líta til þess að hann hafi játað brot sín greiðlega. Hann var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára. Engin sakarkostnaður hlaust af málinu.

Dóminn má skoða hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×