Erlent

Hóta kjarnorkuárás á Bandaríkin

Birta Björnsdóttir skrifar
Kjarnorkuflaug sést lenda í miðri Washington-borg í Bandaríkjunum í nýju myndbandi sem yfirvöld í Norður Kóreu sendu frá sér fyrr í dag.

Í myndbandinu, sem kallast Síðasta tækifærið, og má sjá hér fyrir neðan, er skautað yfir samskipti Bandaríkjanna og Norður Kóreu undir hressilegri tónlist, sem minnir helst á upphafslagið í sjónvarpsþáttunum Dallas.

Myndbandið endar svo á því að kjarnorkuflaug sést skotið frá Norður Kóreu yfir kyrrahafið þar sem hún lendir í Washington við minnismerkið um Abraham Lincon, eitt helsta kennileiti borgarinnar.

Þá er klykkt út með þeim skilaboðum að ef bandarískir heimsvaldasinnar ráðist inn á norður-kóreskt yfirráðasvæði verði því samstundis svarað með kjarnorkuárás.

Skilaboðin koma í kjölfar fyrri yfirlýsinga úr herbúðum Norður Kóreumanna, þar sem sterk staða þeirra á sviði herafla er tíunduð. Þá hefur leiðtoginn Kim Jong Un verið óspar á yfirlýsingar um hefndaraðgerðir gegn nágrannaríkinu Suður Kóreu, Bandaríkjunum og öllum öðrum ríkjum sem gerast sek um afskipti af vígbúnaði þeirra.


Tengdar fréttir

Hóta aftur kjarnorkuárásum

Sérfræðingar draga í efa að Norður-Kórea búi yfir kunnáttu til að koma kjarnorkuvopnum fyrir á eldflaugum.

Kim Jong-un setur kjarnavopnin í viðbragðsstöðu

Kim Jong-un, leiðtogi Norður Kóreu, segir að kjarnorkuvopn ríkisins ættu að vera til taks hvenær sem er. Leiðtoginn ávarpaði æðstu menn hersins í gær þar sem hann skipaði þeim að breyta skipulagi sínu á þann veg að Norður Kórea geti skotið á loft kjarnorkusprengju í fyrirbyggjandi tilgangi eins og hann orðaði það. Frá þessu greinir ríkisfréttastofa landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×