Viðskipti innlent

Höskuldur: Erfitt en nauðsynlegt að grípa til svona aðgerða

Ásgeir Erlendsson skrifar
46 starfsmönnum Arion banka var í dag sagt upp störfum. Höskuldur Ólafsson, bankastjóri, segir að um hagræðingaraðgerðir sé að ræða. Viðskiptavinir kjósi í ríkari mæli að nýta sér tæknina í stað útibúa.

Starfsmönnunum var tilkynnt þessi ákvörðun í dag en í þessum hópi störfuðu 27 í höfuðstöðvum bankans en 19 á öðrum starfstöðvum.

Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka segir að uppsagnirnar í dag megi rekja til hagræðingar í rekstri. Miklar breytingar hafi orðið á fjármálaþjónustu á undanförnum árum með aukinn tækni og sú þróun kalli á breytingar.

„Heimsóknir í hefðbundin útibú fækkar stöðugt. Þeim hefur fækkað um þriðjung á undanförnum tveimur árum. Sömuleiðis hefur eftirspurn eftir öðrum afgreiðsluleiðum fjölgað gríðarlega mikið og þar þarf minni mannafla,“segir Höskuldur.

Hann segir að við rekstur bankans verði að horfa til allra kostnaðarliða. Stærsti kostnaðarliðurinn sé fjármagnskostnaður og þar hafi bankinn náð ágætum árangri en launakostnaður sé sá næst stærsti.

„Nú sáum við færi og teljum nauðsynlegt, þó það sé erfitt, að grípa til svona aðgerða.“

Vinnumálastofnun var tilkynnt um breytingarnar þar sem um hópuppsögn var að ræða. Höskuldur segir frekari uppsagnir ekki á döfinni og ekki sé stefnt að fækkun útibúa.

„Því sú þjónusta sem þar fer fram er mjög verðmæt og skiptir miklu máli þó aðrar afgreiðsluleiðir skipti jafnvel meira máli,“ segir Höskuldur Ólafsson.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×