Lífið

Hörpu umbreytt í risastóran tölvuleik

Baldvin Þormóðsson skrifar
Atli Bollason fékk hugmyndina þegar hann stóð á Arnarhóli fyrir tveimur árum.
Atli Bollason fékk hugmyndina þegar hann stóð á Arnarhóli fyrir tveimur árum. vísir/valli
„Ég fékk þessa hugmynd þegar ég stóð á Arnarhóli fyrir svona tveimur árum að horfa á sólina setjast,“ segir Atli Bollason, en hann býður borgarbúum að spila tölvuleikinn sígilda PONG á ljósahjálmi Hörpu á Menningarnótt í samstarfi við Owan Hindley.

„Núna er allt hafnarsvæðið orðið að leiktækjasal,“ segir Atli. Hver sem vill spila leikinn þarf aðeins að koma sér fyrir á Arnarhóli með gott útsýni yfir Hörpu. Þar hefur verið komið fyrir sérstöku þráðlausu neti sem spilarar tengjast með snjallsíma en símann nota leikendur svo til að stýra spöðunum í leiknum og framhlið Hörpu gegnir síðan hlutverki skjás.

„Við prófuðum þetta í seinustu viku og þetta var ekkert smá feitt,“ segir Atli „Ferðamennirnir sem voru að labba fram hjá skildu ekkert hvað var í gangi.“

Til þess að spila á Menningarnótt þurfa leikendur að mæta á Kalkofnsveg gegnt Hörpu á milli 21.30 og 23.00 og fá afhentan síma en frá 24.-31. ágúst getur hver sem er mætt með eigin snjallsíma og spilað frá klukkan hálftíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×