Enski boltinn

Hornspyrna Gylfa kom Swansea á bragðið gegn Liverpool | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi og Ayew áttu heiðurinn að fyrsta marki Swansea.
Gylfi og Ayew áttu heiðurinn að fyrsta marki Swansea. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp fyrsta mark Swansea City í 3-1 sigri á Liverpool í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Mörkin úr leiknum má sjá hér fyrir neðan.

Swansea komst með sigrinum upp í 13. sæti deildarinnar en Liverpool er enn í því sjöunda.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, stillti upp veiku liði á Liberty-vellinum í dag og hans menn voru í miklum vandræðum gegn spræku Swansea-liði.

Heimamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og sóttu stíft. Pressan bar svo árangur á 20. mínútu þegar André Ayew stangaði hornspyrnu Gylfa í netið. Þetta var þriðja stoðsending Gylfa á tímabilinu.

Jack Cork kom Swansea í 2-0 með fallegu skoti á 33. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.

Klopp gerði tvær breytingar í hálfleik og annar varamaðurinn, Christian Benteke, minnkaði muninn fyrir Liverpool á 65. mínútu með sínu áttunda deildarmarki í vetur.

Gleði gestanna var þó skammvinn því aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Ayew sitt annað mark og kláraði leikinn fyrir Swansea.

Fjórtán mínútum fyrir leikslok fékk Bradley Smith, leikmaður Liverpool, að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. Það breytti þó engu um úrslitin. Lokatölur 3-1, Swansea í vil.

Swansea 1-0 Liverpool Swansea 2-0 Liverpool Swansea 2-1 Liverpool Swansea 3-1 Liverpool



Fleiri fréttir

Sjá meira


×