Körfubolti

Hörður Axel samdi við Keflavík til fjögurra ára

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hörður Axel og Ingvi Þór Hákonarson, formaður KKD Keflavíkur, handsala samninginn í kvöld.
Hörður Axel og Ingvi Þór Hákonarson, formaður KKD Keflavíkur, handsala samninginn í kvöld. mynd/keflavík
Keflavík fékk í kvöld gríðarlegan liðsstyrk fyrir átökin í Dominos-deild karla í körfubolta á næstu leiktíð þegar Hörður Axel Vilhjálmsson skrifaði undir fjögurra ára samning við félagið.

Þetta kemur fram á heimasíðu Keflavíkur en þessi 27 ára gamli landsliðsmaður er einn allra besti körfuboltamaður þjóðarinnar og hefur verið í atvinnumennsku undanfarin fimm ár.

Klásúla er í samningi Harðar Axel sem segir að ef „ákjósanlegt tilboð frá erlendu liði berst fyrir 1. október þá mun körfuknattleiksdeild Keflavíkur ekki standa í vegi fyrir því.“

Hörður, sem er uppalinn Fjölnismaður, spilaði með Njarðvík og Keflavík í efstu deild áður en hann fór til Mitteldeutscher í Þýskalandi árið 2011. Þar stóð hann sig vel og fékk samning hjá CB Valladolid í efstu deildinni á Spáni sem er sterkasta deild Evrópu.

Hann hefur undanfarin misseri spilað með Aries Trikala í Grikklandi og CEZ Nymburk í Tékklandi en hefur nú ákveðið að snúa heim og leik á ný með Keflavík.

Hörður Axel er fastamaður í íslenska landsliðinu og spilaði stórvel á Evrópumótinu á síðasta ári. Þegar hann spilaði síðast hér heima með Keflavík fyrir fimm árum var hann stiga- og stoðsendingahæsti leikmaður liðsins með 16,5 stig að meðaltali í leik og 7,3 stoðsendingar.

Keflavík hafnaði í þriðja sæti Dominos-deildarinnar á síðustu leiktíð en féll úr leik í átta liða úrslitum Íslandsmótsins eftir 3-1 tap gegn Tindastóli.

Það er ljóst að Keflvíkingar eru stórhuga með að fá Hörð Axel til liðs við sig og ákveðin skilaboð um þreytu á árangursleysi. Þetta mikla körfuboltastórveldi varð síðast meistari fyrir átta árum síðan og spilaði síðast til úrslita 2010 en tapaði. Hörður Axel var með í liðinu sem tapaði fyrir Snæfelli í oddaleik 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×