Viðskipti innlent

Hörð gagnrýni vegna gagnavers

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Stutt er í nægt rafmagn í Sólheimalandi á Hólmsheiði.
Stutt er í nægt rafmagn í Sólheimalandi á Hólmsheiði. vísir/vilhelm
„Þarna væri verið að afhenda einu fyrirtæki ótiltekin verðmæti inn í framtíðina á kostnað íbúa,“ segir í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar í skipulagsnefnd Mosfellsbæjar vegna beiðni Símans um lóð undir gagnaver á Hólmsheiði.

Síminn óskaði eftir því í mars síðastliðnum að fá til að byrja með skipulagða fimm þúsund fermetra lóð í landi Sólheima með möguleika á því að fá forkaupsrétt á stórum hluta Sólheimajarðarinnar. Sá réttur myndi tryggja uppbyggingu viðskipta á svæðinu í allt að fimmtán árum. Umrætt land er skammt frá nýja fangelsinu á Hólmsheiði og rétt við háspennulínur sem hægt væri að tengja við gagnaverið.

„Framtíðarsýn Símans gerir það að verkum að mikilvægt er að hafa tryggt rými til stækkunar,“ segir í erindi Orra Haukssonar, forstjóra Símans, til Mosfellsbæjar. Mikil tækifæri kunni að felast í rekstri gagnavera hérlendis. „Markmið Símans er að byggja gagnaver sem þjónar innlendum og erlendum mörkuðum, með áherslu á alþjóðaviðskipti.“

Orri Hauksson, forstjóri Símans.
Erindi forstjóra Símans var tekið fyrir í þriðja sinn í skipulagsnefnd Mosfellsbæjar í síðustu viku. Þá ákvað meirihluti Sjálfstæðisflokks og VG í nefndinni að fela skipulagsfulltrúa bæjarins að skoða möguleika á staðsetningu nýrra atvinnusvæða. Fyrir lá tímaáætlun um að skipulagsbreytingu væri lokið í janúar 2018.

Samson Bjarnar Harðarson, fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni, sagði það mundu vera slæmt fordæmi að gera breytingar á svæðisskipulaginu þar sem ekki væru til staðar ríkari almannahagsmunir. Svæðið sé innan öryggismarka vatnsverndarsvæðis og innan Græna trefilsins svokallaða.

„Land sem í framtíðinni mun líklegast verða til muna verðmætara en það er í dag. Taka verður tillit til þess að Síminn hafði þegar leitað eftir samningum á þegar skipulögðu iðnaðarsvæði steinsnar frá, í landi Reykjavíkur þar sem ekki var fallist á slíkan samning,“ bókaði Samson, sem benti jafnframt á að mengun fylgdi slíku gagnveri. „Því umtalsverður hávaði er henni samfara í nú annars friðsælu umhverfi.“

Landið sem Síminn vill fyrir stórt gagnaver er skammt austan nýja fangelsisins á Hólmsheiði og nærri háspennulínum.
Gunnlaugur Johnson, áheyrnarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar, benti sömuleiðis á að staðsetning gagnaversins stangaðist á við svæðisskipulag og bókaði að hann „undraðist stórlega“ að lögð væri fram tímaáætlun um gagnaver á vatnsverndarsvæði. „Sjónræn áhrif mörg þúsund fermetra gagnavers yrðu gríðarleg í dýrmætri náttúruperlu höfuðborgarsvæðisins, í fullkominni andstæðu við friðsælt umhverfið.“ Íbúahreyfingin væri hlynnt gagnaveri í Mosfellsbæ en að finna ætti því byggingarreit sem hefði ekki slík umhverfisáhrif.

Fulltrúar meirihlutans bókuðu þá að fyrirtæki hefðu leitað til Mosfellsbæjar um uppbyggingu við Hólmsheiði og að áhugi á uppbyggingu atvinnufyrirtækja í Mosfellsbæ væri mikill. „Í ljósi þess telur meirihluti V- og D-lista fulla ástæðu til þess að skoða hvort ekki sé þörf á nýjum atvinnusvæðum innan bæjarins, ekki er ólíklegt að það kalli á breytingu á svæðisskipulagi.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×