Erlent

Hörð barátta framundan um formennsku í breska Íhaldsflokknum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Theresa May etur kappi við Michael Gove og fleiri um formannsembættið.
Theresa May etur kappi við Michael Gove og fleiri um formannsembættið. Nordicphotos/AFP
Dómsmálaráðherrann Michael Gove og innanríkisráðherrann Theresa May lýstu í gær yfir framboði sínu til embættis formanns Íhaldsflokksins í Bretlandi.

David Cameron, fráfarandi forsætisráðherra, mun láta bæði af embætti formanns flokksins og forsætisráðherra í september og nýr formaður taka við.

May barðist fyrir áframhaldandi veru í Evrópusambandinu en laut í lægra haldi fyrir fylkingu Goves og Boris Johnson sem börðust fyrir Brexit, aðskilnaði Bretlands frá Evrópusambandinu, sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu á fimmtudag síðustu viku. Auk Gove og May eru vinnumálaráðherrann Stephen Crabb, orkumálaráðherrann Andrea Leadsom og fyrrverandi varnarmálaráðherrann Liam Fox í framboði.

„Ég vildi hjálpa til við að byggja upp framboð Boris Johnson svo stjórnmálamaður sem mælti fyrir aðskilnaði frá Evrópusambandinu gæti leitt okkur inn í betri framtíð,“ sagði Gove þegar hann tilkynnti um framboð sitt í gær. „Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að Boris getur ekki veitt okkur þá leiðsögn sem þarf.“

Við tilkynningu sína sagði May að Bretland þyrfti sterka og reynda stjórn til að stýra landinu í gegn um efnahagslega og pólitíska óvissu. May, sem var andvíg Brexit, sagði þó að hún myndi ekki hundsa niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Veðbankar töldu þingmanninn og Brexit-sinnann Boris Johnson líklegastan en er Johnson tilkynnti um ákvörðun sína í gær sagði hann að næsti leiðtogi íhaldsmanna myndi þurfa að sameina flokksmenn og tryggja stöðu Bretlands í heiminum.

„Eftir að hafa ráðfært mig við samstarfsmenn mína og í ljósi aðstæðna á þinginu hef ég dregið þá ályktun að ég geti ekki gert það,“ sagði Johnson.



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. júlí 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×