Viðskipti innlent

Hópuppsögn hjá Arion banka

Birgir Olgeirsson skrifar
Útibú Arion banka í Kópavogi.
Útibú Arion banka í Kópavogi. Mynd/Arion banki
Fjörutíu og sex starfsmönnum var sagt upp hjá Arion banka í dag. Af þeim störfuðu 27 í höfuðstöðvum bankans en 19 á öðrum stafsstöðvum. Eftir breytingarnar starfa um 840 manns hjá Arion banka. Vinnumálastofnun hefur verið greint frá starfslokunum.

Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að ýmislegt kalli á þessar uppsagnir. Er sú veigamesta sögð sú staðreynd að fjármálaþjónusta tali miklum breytingum nú um mundir þar sem viðskiptavinir kjósi að nýta sér sjálfsafgreiðslulausnir eins og bankaapp, netbanka og hraðbanka í stað samsvarandi útibúaþjónustu.

Segir í tilkynningunni að notkun appsins og hraðbanka í útibúum bankans hafi margfaldast á undanförnum árum. Er því haldið fram að eftirspurn eftir afgreiðslu í útibúum bankans hafi dregist saman um þriðjung á tveimur árum. Sú þróun kalli á breytingar og eru samhliða gerðar skipulagsbreytingar í útibúum bankans, án þess þó að útibúum fækki.

„Fækkun starfsfólks er þungbært skref að stíga en nauðsynlegt í ljósi breyttra áherslana í starfsemi bankans og ytri aðstæðna,“ segir í tilkynningu bankans vegna málsins.

Afkoman var undir væntingum

Hagnaður Arion banka á fyrri helmingi ársins 2016 var undir væntingum bankans. Bankinn hagnaðist um 9,8 milljarða króna á þessu tímabili samanborið við 19,3 milljarða króna á sama tímabili 2015. Afkoma bankans var betri á síðasta ári meðal annars vegna einskiptingsliða, það er sölu eigna, sem ekki kom til á þessu ári.

Við kynningu árshlutauppgjöra hefur komið fram að rekstrarkostnaður bankanna hefur aukist, meðal annars vegna hærri launakostnaðar eftir nýja kjarasamninga. Bankarnir vinna að því að draga úr launakostnaði með fækkun útibúa.

Í afkomutilkynningu bankans sagði Höskuldur Ólafsson, forstjóri Arion, að aðstæður á fjármálamörkuðum hafi verið bankanum óhagstæðar á fyrri hluta ársins. Þannig hafi fjármagnstekjur, aðrar en sala Valitor á hlutabréfum í Visa Europe, verið undir væntingum og var bókfært umtalsvert tap af hlutabréfaeign bankans í skráðum félögum.

Meðal starfsaldur 10 ár

Á vef Arion kemur fram að um 900 manns starfa hjá bankanum, þar af eru 65% konur og 35% karlar. Nú eru það hins vegar um 840 manns eftir þessa hópuppsögn. Kynjaskipting á meðal stjórnenda bankans fyrir uppsagnirnar voru sögð fremur jöfn og sama að sama gildi um aldursdreifingu innan bankans, en meðalaldur starfsfólks Arion banka er 42 ár.

Fjölmargir starfsmenn hafa sýnt bankanum og forverum hans mikla tryggð og eru dæmi um að starfsmenn séu með meira en 40 ára starfsaldur. Meðalstarfsaldur hjá starfsfólki Arion banka er tíu ár.

Tilkynning Arion banka vegna málsins:

Í dag var 46 starfsmönnum Arion banka tilkynnt um starfslok þeirra hjá bankanum. Í þessum hópi störfuðu 27 í höfuðstöðvum bankans en 19 á öðrum starfsstöðvum. Eftir breytingarnar starfa um 840 manns hjá Arion banka. Vinnumálastofnun hefur verið greint frá starfslokunum.

Ýmislegt í umhverfi bankans kallar á breytingar á starfseminni. Veigamest er sú staðreynd að fjármálaþjónusta tekur umtalsverðum breytingum um þessar mundir. Viðskiptavinir kjósa í mun ríkari mæli að nýta sér sjálfsafgreiðslulausnir eins og bankaapp, netbanka og hraðbanka í stað samsvarandi útibúaþjónustu. Notkun appsins og hraðbanka í útibúum bankans hefur margfaldast á undanförnum árum. Vegna þessa hefur spurn eftir afgreiðslu í útibúum bankans dregist saman um þriðjung á tveimur árum. Þessi þróun kallar á breytingar og eru samhliða gerðar skipulagsbreytingar í útibúum bankans, án þess þó að útibúum fækki.

Breytingarnar nú eru liður í víðtækari aðgerðum til hagræðingar í rekstri bankans. Þrátt fyrir umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir undanfarin ár og endurskipulagningu starfseminnar hefur fjöldi starfsmanna haldist nokkuð stöðugur vegna yfirtöku á öðrum fjármálafyrirtækjum og vegna aukinna umsvifa. Fækkun starfsfólks er þungbært skref að stíga en nauðsynlegt í ljósi breyttra áherslana í starfsemi bankans og ytri aðstæðna.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×