Innlent

Hoppukastali fullur af börnum féll saman: „Það þarf alltaf að fylgjast með“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Eftirlitslaus hoppukastali lagðist ítrekað saman við hátíðahöld í Egilshöll í gær en foreldrar á svæðinu þurftu sjálfir margsinnis að stökkva til og draga börn sín út úr honum. Rekstrarstjóri leiktækjaleigu brýnir fyrir þeim sem taka hoppukastala á leigu að alltaf sé eftirlit með köstulunum á viðburðum.

Að sögn viðmælanda Vísis, sem staddur var í Egilshöll með börnum sínum við hátíðahöld á Grafarvogsdeginum í gær, voru of mörg börn inni í umræddum hoppukastala. Engir starfsmenn voru á svæðinu til að fylgjast með kastalanum. Í miðjum æsingnum lagðist hann skyndilega saman og foreldrar á svæðinu þurftu að stökkva til og halda honum opnum á meðan börnunum var komið út. Þetta gerðist þrisvar áður en loftið var að lokum tekið úr kastalanum.

Foreldrar barna á svæðinu lokuðu sjálfir kastalanum eftir að hann lagðist saman í annað skipti, að sögn viðmælanda Vísis, en þeir voru þá orðnir nokkuð áhyggjufullir. Skömmu síðar fór nýr hópur barna að leika sér í kastalanum og nýr hópur foreldra tók við vaktinni. Enn lagðist kastalinn saman en í aðstæðum sem þessum geta börn átt erfitt um andardrátt, sérstaklega þegar þau eru of mörg saman komin inni í leiktækinu.

Samkvæmt dagskrá Grafarvogsdagsins voru hoppukastalarnir liður í uppákomum í Egilshöll á milli 11 og 13. Að sögn foreldra á svæðinu hafði eitthvað eftirlit verið með kastalanum til 12 en þá hafi eftirlitsmenn farið og kastalinn skilinn eftir í gangi, opinn öllum.

Brýnt að gæsla sé í lagi

„Það er náttúrulega númer eitt, tvö og þrjú að það séu ekki of mörg börn inni í hoppuköstulum einu,“ segir Guðný Rut Sigurjónsdóttir, rekstrarstjóri leiktækjaleigunnar Hopp og skopp. Leigan sá nokkrum skemmtunum fyrir hoppuköstulum í gær, þó ekki þeirri er fram fór á Grafarvogsdeginum. 

Hún segir að ef hoppukastalinn hafi byrjað að falla saman á meðan krakkarnir voru inni í honum hafi það líklegast verið lélegri gæslu um að kenna, en mikilvægt er að fylgjast með loftmagni í hoppuköstulum. Eftirlit með því sé á ábyrgð gæslumanna. Hún brýnir fyrir fólki að staðarhaldarar sjái fyrir eftirliti með hoppuköstulum á viðburðum sem þessum.

„Eins brýnum við fyrir fólki að það þarf alltaf að vera gæsla, það þarf alltaf að fylgjast með.“

Ekki náðist í aðstandendur Grafarvogsdagsins við vinnslu þessarar fréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×