Innlent

Hoppuðu á þaki bíls

Lillý Valgerður Pétursdóttir. skrifar
Fjórir ungir menn eru grunaðir um að hafa gengið berserksgang í Breiðholti í gærkvöldi og skemmt á þriðja tug bíla. Einn bílanna er nær ónýtur eftir að hoppað var á þaki hans.

Lögreglunni bárust tilkynningar um ellefu leytið í gærkvöldi um að hópur ungra manna gengi um götur í Breiðholtinu og skemmdi bíla. Lögreglan kom á staðinn og handtók fjóra menn á aldrinum 16 til 22 ára. Svo virðist sem að þeir hafi unnið skemmdir á á þriðja tug bíla víðs vegar um hverfið. Allt frá Vesturbergi til Maríubakka. Einn bílanna er nær ónýtur. Talið er að mennirnir hafi hoppað á þaki hans og má sjá skófar á rúðu bílsins. Hann er nú í vörslu lögreglunnar.

Þá voru rúður brotnar í nokkrum bílum og fjöldi spegla eyðilagður. Talið er að ungu mennirnir hafi sparkað speglana niður og síðan notað grjót til að brjóta rúðurnar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafa tilkynningar borist um tjón á bílum í að minnsta kosti sjö götum í hverfinu. Þá er grunur um að mennirnir hafi brotið rúðu í fjölbýlishúsi í hverfinu.

Þetta er í annað sinn á árinu sem að skemmdir eru unnar á fjölda bíla í Breiðholti. Í fyrra skiptið var enginn handtekinn. Mennirnir voru yfirheyrðir í dag og verður sleppt að loknum yfirheyrslum. Talið er að tjónið hlaupi á milljónum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×