Lífið

Hoppar á milli húsþaka og hrindir fólki

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Jóhannes slappar af á hótelinu í Marokkó.
Jóhannes slappar af á hótelinu í Marokkó. mynd/einkasafn
Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson dvelur í Marokkó þessa dagana og fram í desember að leika í erlendum sjónvarpsþáttum. Á morgun er annar tökudagur hans en þá leikur hann í spennuatriði.

„Það er verið að elta mig í senunni og ég fæ að stökkva á milli húsþaka. Það er nú samt ekki langt á milli húsþakanna,“ segir Jóhannes glaður í bragði.

„En þetta er smá eltingarleikur. Hlaupa niður tröppur, hrinda fólki og borðum og stökkva á milli húsþaka,“ bætir hann við.

Jóhannesi býðst áhættuleikari í atriðinu en ætlar að reyna að leika í öllum áhættuatriðum sjálfur.

„Ég dreg í raun bara línuna við það ef mér finnst eins og ég gæti dáið – þá geri ég þetta ekki. Þeim sem standa að verkefninu finnst það sanngjarnt,“ segir hann. En er hann ekkert stressaður?

„Nei, ég er aðallega spenntur.“

Jóhannes var ekkert sérstaklega góður gaur í kvikmyndinni Svartur á leik.
Aðspurður um hvaða sjónvarpsþættir þetta eru getur Jóhannes ekkert sagt en samkvæmt heimildum Lífsins á Vísi er um að ræða sjónvarpsþættina A.D.: Beyond the Bible. Samkvæmt Hollywood Reporter er um tólf þátta seríu að ræða en fyrsti þátturinn verður sýndur vestan hafs vorið 2015. Framleiðandi þáttanna er Mark Burnett en hann er hvað þekktastur fyrir að framleiða raunveruleikaþættina Survivor, The Apprentice og Shark Tank.

Jóhannes getur einnig lítið sagt um karakterinn sem hann leikur.

„Eitt sem ég get sagt er að þessi karakter er tilbreyting fyrir mig. Ég er vanur að leika illmenni og skíthæla en þessi er góður gaur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×