Skoðun

Hommar og íslensk þjóðarsál

Sveinn Arnarsson skrifar
Íslensk þjóð telur sig vera þá mestu og bestu sem gjörvallt sólkerfið hefur barið augum frá Miklahvelli. Á tyllidögum teljum við okkur komin ljósár á undan öðrum þjóðum hvað varðar jafnrétti kynjanna, frelsi fjölmiðla, eigum hreinustu orkuna, fallegustu náttúruna, fallegustu konurnar. Nú og ef við erum ekki alveg að ná markmiðinu þá trompum við allt með íslensku uppfinningunni „höfðatölu“, sem virðist vera einhvers konar afturhvarf til grískra dæmisagna um refinn sem náði ekki berjunum og taldi þau súr fyrir bragðið.

Í rauninni erum við Íslendingar ekkert nema haugur af Mývetningum; fullir af lofti. Við rembumst við að telja okkur trú um eitthvað sem er í reynd tóm fjárans lygi. Til að mynda er lífseig sú mýta okkar Íslendinga að við séum með hreinustu náttúruafurðirnar, landið okkar sé svo hreint. Meira að segja hafa þingmenn bent á þessa „staðreynd“. Hverjir eru búnir að gleyma of miklu kadmíum í áburði, iðnaðarsalti, díoxínmengun í Skutulsfirði, flúormengun á fleiri en einum stað og svo mætti lengi telja? Dæmin sanna að við erum alveg jafn góð í að eitra okkar eigin matvæli eins og aðrir. Við Íslendingar erum bara alveg eins og allir aðrir, hvorki verri né betri.

Við erum bara svo aftarlega á merinni, sirkabát 100 árum of aftarlega á merinni, að karlmaður má einungis gefa blóð í Blóðbankanum ef hann sver þess eið að stunda aðeins kynlíf með konu!

Bíddu, ha… hvað var ég að skrifa… Mega samkynhneigðir karlmenn ekki, í þeirri barnslegu einlægni að vilja gera samfélagi sínu greiða, gefa blóð í Blóðbankann? Bý ég í samfélagi þar sem blóðgjöf frá nánum vinum mínum er talin annars flokks blóð, já, eða jafnvel þriðja eða fjórða flokks? Bý ég í samfélagi sem dregur samkynhneigða karlmenn í svo ógeðfelldan dilk að við viljum ekki nýta gjafir frá þeim? Viljum við búa í svoleiðis samfélagi?




Skoðun

Sjá meira


×